Faðir Peter Greste, blaðamanns hjá Al-Jazeera, segir réttarhöldin yfir syni sínum andlegar pyntingar en Greste er sakaður um tengsl við stjórnmálasamtökin Bræðralag múslima en þau eru bönnuð í Egyptalandi. Greste, sem er ástralskur, var handtekinn í Egyptalandi og er ákærður fyrir að dreifa röngum fréttum og að styðja við bakið á samtökunum.
Greste var synjað um að vera látinn laus gegn tryggingu er hann kom fyrir dómara í gær. Var komið með hann í réttarsalinn í búri.
Faðir hans, Juris Greste, segir að hann sé gjörsamlega brjálaður yfir því að sjá hvernig komið sé fram við son sinn og honum haldið við hámarksöryggisgæslu þrátt fyrir að engar sannanir séu á hendur honum. Greste hefur verið leiddur fyrir dómara í fjórgang á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá handtöku hans.
Juris Greste ræddi við fjölmiðla í Brisbane í Ástralíu í dag en hann var í stuttermabol með áletruninni „blaðamennska er ekki hryðjuverkastarfsemi“.
Réttarhöldin yfir Greste og starfsbræðrum hans hafa vakið athygli enda fer lítið fyrir fjölmiðlafrelsi í Egyptalandi. Í gær var réttarhöldunum frestað til 10. apríl.
Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, ræddi nýverið við bráðabirgða forseta Egyptalands, Adly Mansour um að Greste yrði látinn laus enda hafi hann einungis verið að vinna vinnuna sína með fréttaflutningi frá Kaíró. „Hann var einfaldlega að vinna vinnuna sína og það sem frjáls fjölmiðlun snýst um. Að segja fréttir af staðreyndum þegar upplýst er um þær og það er nákvæmlega það sem hann var að gera.“