Ákært vegna kynfæralimlestingar í fyrsta sinn

Milljónir kvenna hafa orðið fyrir limlestingum þar sem hluti ytri …
Milljónir kvenna hafa orðið fyrir limlestingum þar sem hluti ytri kynfæra þeirra er skorin burt. AFP

Tveir Bretar voru ákærðir fyrir limlestingar á kynfærum konu í lok mars, í fyrsta sinn síðan lög voru sett gegn slíkum aðgerðum fyrir 29 árum. Þúsundir kvenna hafa verið lagðar inn á sjúkrahús í London síðustu ár í kjölfar misþyrmingar á kynfærum. Til þessa hafa hinsvegar engin þessara mála ratað fyrir dómstóla.

Í Bretlandi er nú rætt um hvort binda eigi í lög tilkynningaskyldu, vakni grunur um misþyrmingu á kynfærum kvenna. Gagnrýnt hefur verið að breska kerfið sé að bregðast ungum stúlkum sem eiga slíkar misþyrmingar á hættu. 

Lög gegn limlestingum á kynfærum kvenna voru samþykkt á Íslandi árið 2005, en ekki hefur reynt á þau. Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu hefur ekkert slíkt mál komið upp né heldur grunsemdir vaknað um umskurð hér á landi.

Úrræðaleysi í kerfinu

Sameinuðu þjóðirnar skilgreina umskurð kvenna sem pyntingar og einn hættulegasta verknað sem tíðkast á jörðinni í dag. Þótt umskurður sé á undanhaldi sæta enn um 3 milljónir stúlkna slíkum limlestingum árlega aðeins í Afríku, og fleiri til viðbótar í Mið-Austurlöndum og Asíu.

Í Evrópu er talið að um 180.000 stúlkur undir 15 ára aldri séu í áhættuhópi á hverju ári og tölur sýna að þúsundir kvenna í Bretlandi eru skornar á kynfærum, þótt það hafi verið ólöglegt í tæpa þrjá áratugi. Oftast eru það foreldrar eða fjölskyldumeðlimir stúlkna sem skipuleggja aðgerðina.

Frá árinu 2009 hafa 3.939 konur lagst inn á sjúkrahús í Bretlandi eftir limlestingar á kynfærum. Í sameiginlegri skýrslu breskra hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, kvensjúkdóma- og fæðingalækna auk mannréttindasamtakanna Equality Now segir að alvarlegar gloppur séu í viðbrögðum félagslega kerfisins í Bretlandi hvað varðar umskurð kvenna.

Ef grunur leiki á um að stúlka sé í hættu á eða hafi verið skorin viti heilbrigðisstarfsmenn ekki hvert þeir eigi að snúa sér. Enginn skýr rammi sé um það í hvaða farveg slík ofbeldismál eigi að fara. Dæmi eru um að limlestingarmál dagi uppi í félagslega kerfinu þar sem félagsráðgjafar telji þau ekki á sínu sviði.

66.000 konur í Bretlandi limlestar

Alison Saunders, ríkissaksóknari í Englandi og Wales, sagðist í samtali við Guardian í síðustu viku vera þeirrar skoðunar að lögbinda ætti tilkynningaskyldu til lögreglu vegna grunsemda um limlestingar á kynfærum kvenna.

Talið er að allt að 66.000 konur í Bretlandi hafi orðið fyrir slíkum limlestingum, en 144 mál hafa verið tilkynnt lögreglu, og aðeins 11 þeirra send áfram til ríkissaksóknara. Í fyrsta sinn í sögu Bretlands var svo ákært í slíku máli föstudaginn 21. mars. Lög gegn limlestingum á kynfærum kvenna voru sett árið 1985.

Saunders segir þó að ástæðan fyrir því að aldrei hefur áður verið ákært sé fyrst og fremst skortur á sönnunargögnum. Engu að síður telur hún að gera þurfi umbætur á kerfinu í þessum málaflokki.

„Það þýðir ekkert að bíða eftir því að dæmigerður þolandi, ung stúlka, komi blaðskellandi og beri vitni gegn sinni eigin fjölskyldu,“ hefur Guardian eftir Saunders. Þörf sé á markvissri rannsóknarvinnu og tilvísun frá heilbrigðiskerfinu til lögreglu.

Tímamót að fá málið fyrir dóm

Í Frakklandi hafa verið sett lög sem skylda forráðamenn ungra stúlkna til að láta þær undirgangast reglubundnar læknisrannsóknir, í því skyni að finna þær sem eru í áhættuhópi og forða þeim frá umskurði. Saunders segist ekki taka afstöðu til þess hvort Bretar ættu að fara sömu leið.

Mennirnir tveir sem eru fyrstir til að verða ákærðir fyrir kynfæralimlestingu heita Hasan Mohamed og dr. Dhanuson Dharmasena. Málið fer fyrir dóm 15. apríl, en það varðar aðgerð sem framkvæmd var á konu á Whittington-sjúkrahúsinu í Norður-London árið 2012. Verði þeir fundnir sekir gætu þeir fengið allt að 14 ára fangelsisdóm.

Efua Dorkenoo, talskona samtakanna Equality Now, fagnar ákærunni í samtali við Guardian og segir frábært að loksins fari slíkt mál fyrir dóm. „Ákæra sendir sterk skilaboð um að limlesting á kynfærum kvenna verði ekki liðin. En við verðum að tryggja að stúlkur sem eru í hættu fái vernd og eins að þolendur fá þann læknisfræðilega, sálfræðilega og tilfinningalega stuðning sem þær þurfa til að stíga fram og segja frá.“ 

Í Bretlandi er stærsti áhættuhópur vegna limlestinga á kynfærum stúlkur …
Í Bretlandi er stærsti áhættuhópur vegna limlestinga á kynfærum stúlkur undir 15 ára aldri í samfélögum innflytjenda frá Afríku, Afganistan, Pakistan, Jemen og Indónesíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert