Ki-moon heimsækir Mið-Afríkulýðveldið

Catherine Samba-Panza, forseti Mið-Afríkulýðveldisins, tekur á móti Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra …
Catherine Samba-Panza, forseti Mið-Afríkulýðveldisins, tekur á móti Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. AFP

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kom í óvænta heimsókn til Bangui, höfuðborgar Mið-Afríkulýðveldisins, í morgun. Hann mun funda með nýjum forseta landsins, Catherine Samba Panza, síðar í dag.

Þau munu meðal annars ræða ástandið í landinu og hvernig hægt sé að binda enda á átökin sem þar hafa geisað undanfarið, að því er segir í frétt AFP um málið.

Panza hefur kallað eftir því að fleiri friðargæsluliðar verði sendir á átakasvæðin í landinu. Um sex þúsund hermenn hafa verið við friðargæslu, en þeir koma frá Afríkusambandinu, og þá hafa jafnframt um tvö þúsund franskir hermenn reynt að koma á friði í landinu.

Þeim hefur hins vegar tekist illa að koma í veg fyrir það sem Sameinuðu þjóðirnar kalla þjóðernishreinsanir á múslímum, sem eru í miklum minnihluta í Mið-Afríkulýðveldinu.

Algjör glundroði hefur verið í landinu undanfarið ár, eða síðan uppreisnarmenn boluðu forsetanum Francois Bozize frá völdum. Landið er nú meira og minna stjórnlaust og hafa uppreisnarmenn gengið um drepandi, nauðgandi og rænandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert