„Stundum finnst mér ég enn vera mennskur, en oft líður mér eins og ég hafi misst vitið,“ segir Jean-Bosco Rurangirwa sem horfði upp samlanda sína, vopnaða sveðjum, slátra fjölskyldu hans í apríl 1994.
Rúandamenn minnast þess nú að 20 ár eru liðin síðan út braust borgarastríð með einu blóðugasta þjóðarmorði 20. aldarinnar.
Hörmungarnar í Rúanda eru gjarnan teknar sem dæmi um það þegar umheimurinn snýr við blindu auga og bregst of seint við. „Aldrei aftur,“ var loforð alþjóðasamfélagsins eftir að blóðbaðið var loks stöðvað, en Sameinuðu þjóðirnar benda þó á að lærdómurinn virðist hafa gleymst því sagan sé að endurtaka sig í Mið-Afríkulýðveldinu og Lýðveldinu Kongó.
Yfir 800.000 manns voru myrtir á 100 dögum í Rúanda árið 1994 í morðöldu sem hófst þann 7. apríl, degi eftir að flugvél forseta landsins var skotin niður. Landið varð stjórnlaust en á örfáum klukkustundum náðu öfgamenn úr röðum Hútú manna völdum og hófu kerfisbundið að útrýma samlöndum sínum sem tilheyrðu Tútsí þjóðflokknum, og hverjum þeim sem reyndi að bjarga þeim.
Að jafnaði var einn Rúandamaður drepinn á 10 sekúndna fresti yfir þetta 100 daga tímabil. Þau sem lifðu af urðu mörg fyrir nauðgunum eða limlestingum. Í dag, 20 árum síðar, er talið að um þriðjungur þjóðarinnar þjáist enn af áfallastreituröskun.
„Þegar þú sérð svona mörg lík, ég sá um 200 lík og þar á meðal eiginkonu minnar og föður, sonar míns og dóttur, - þú missir vitið. Þú verður vitstola,“ segir Rurangirwa þegar hann rifjar hörmungarnar upp við blaðamann Afp.
Rurangirwa, fjölskylda hans og þúsundir annarra leituðu skjóls í kirkju í bænum Nyamata í skjóli nætur, en til einskis. Ódæðismennirnir brutust þar inn með sveðjur á lofti og hjuggu fólkið niður. Aðeins komust um 50 lífs af, þar á meðal Rurangirwa sem lá undir kirkjubekk, grafinn í líkum fjölskyldu hans, vina og nágranna.
Tveimur áratugum síðar hefur Rurangirwa stofnað nýja fjölskyldu, er kvæntur og á fjögur börn. Hann segist þó enn eiga erfitt með að jafna sig á grimmdinni sem hann varð vitni að. „Þegar þú hefur séð lík barnanna þinna liggja við hlið látinnar eiginkonu þinnar...það eru engin orð til að lýsa því.“
Kirkjan í Nyamata þar sem fjölskylda hans var drepin hýsir nú líkamsleifar fórnarlambanna, þúsundir höfuðkúpa og beina sem bera óhugnanlegt vitni um mannfallið.
Rúandamenn voru engan veginn undir það búnir að vinna úr sálrænum erfiðleikum slíkra hörmunga. Naason Munyandamutsa er framkvæmdastjóri Rannsóknarstofnunar friðarviðræðna í Rúanda. Hann kom til landsins eftir þjóðarmorðið 1994 og var þá eini geðlæknirinn í öllu Rúanda.
„Við vissum ekki hvernig við áttum að takast á við þetta. Við höfðum ekki tungutak í okkar menningu til þess að tjá andleg áföll,“ segir hann.
Orðin sem komust næst því voru „ihamamuka“ sem notað var til að lýsa lamandi ótta búpenings sem hefur sætt barsmíðum og „ihungabana,“ kvíði sem veldur andnauð. Geðlæknar þurftu að finna upp nýyrði til að ná til og tjá líðan fólksins í landinu. Rannsóknir sýndu að yfir fjórðungur þjóðarinnar þjáðist af áfallastreituröskun.
Á 20 árum hefur staðan breyst frá því að aðeins einn geðlæknir sé í öllu landinu, til þess að geðlæknir sé í hverju héraði. Það dugar þó ekki til því Munyandamutsa segir að aðeins hafi tekist að ná til lítils hluta þeirra sem enn þjást á sálinni.
Eitt af því sem hefur gerst í kjölfar þjóðarmorðsins er að margir eftirlifendur hverfa inn í heim þagnarinnar. Í samfélaginu er þögult samkomulag um að tjá ekki reiði, af ótta við að það espi upp hatur og ógni friðnum.
Margir bera því harm sinn í hljóði en Munyandamutsa segir að í apríl á hverju ári þyrmi yfir marga þegar minningarnar streyma fram. „Ég hef oft séð, þegar þessa tíma er minnst, að fólk missir málið, það fellur í gólfið og fær flogaveikikast með ofsagráti.“
Þjóðarmorðið í Rúanda tók enda í júlí 1994, þegar hersveitir Rwandan Patriotic Front (RPF) leiddar af Tútsum réðust inn í landið frá Úganda og náðu völdum. RPF er í dag ráðandi flokkur í samsteypustjórn Rúanda, undir forystu forseta landsins Paul Kagame.
Á morgun, 7. apríl, mun Kagame kveikja eld í höfuðborginni Kigali við minnisvarða um þjóðarmorðin og mun hann loga í 100 daga, jafnlengi og blóðbaðið stóð yfir. Þá verður opinber minningarathöfn í borginni þar sem fjöldi leiðtoga er væntanlegur, þar á meðal Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ban sagði í yfirlýsingu í dag að þessi tímamót í Rúanda ættu að vera áminning fyrir heiminn allan um að gera hvað sem hægt er til að tryggja að slíkir glæpir gegn mannkyni endurtaki sig aldrei.
„Umfang grimmdarverkanna í Rúanda er enn í dag sláandi. Að meðaltali 10.000 morð á dag, dag eftir dag, í þrjá mánuði,“ sagði Ban í dag. „Fólk um allan heim ætti að setja sig í spor þeirra sem eiga undir högg að sækja, allt frá Sýrlandi til Mið-Afríkulýðveldisins, og spyrja sjálft sig hvað það geti lagt að mörkum.“
Rurangirwa, sem minnist nú fjölskyldunnar sem hann missti fyrir 20 árum, segist sjálfur fyllast lamandi ótta í hvert sinn sem hann heyri fréttir af árásum herskárra Hútúa í nágrannaríkinu Lýðveldinu Kongó.
Sömuleiðis þegar hann mætir morðingjunum frá því fyrir 20 árum úti á götu og þeir heilsa honum, eftir að hafa verið sleppt úr fangelsi. Hann segir þó að lífið gangi að mestu leyti sinn gang og sársaukinn dofnað.
Geðlæknirinn Mundyandamutsa segir að Rúandamenn hafi náð markverðum árangri við að reisa samfélagið úr rústum þjóðarmorðsins.
„Það var dimm nótt á þessum tíma, djúpt myrkur. Í dag hefur myrkrið ekki vikið að fullu, en við sjáum ljós. Og við getum opnað dyr og glugga og hleypt því inn, til að horfa til framtíðar.“