Lífshættulega slasaðir eftir blóðuga árás

Mikill viðbúnaður var við skólann í dag.
Mikill viðbúnaður var við skólann í dag. Skjáskot af CNN

Bandarískur menntaskólanemi stakk 20 manns, aðallega unglinga, í blóðugri árás sem stóð í um hálftíma í skóla í Pittsburg í Pennsylvaníu í morgun. Árásarmaðurinn stakk þá sem á vegi hans urðu, m.a. inni í skólastofum og á göngum Franklin Regional-skólans í Murrysville.

Nokkrir eru lífshættulega slasaðir, hefur CNN eftir yfirmanni bráðadeildar á Forbes-sjúkrahúsinu.

Neminn, sem er karlkyns, hóf árás sína kl. 7.13 að staðartíma, 12.13 að íslenskum tíma. Þá voru nemendur að hefja skóladag sinn.

Árásinni lauk hálftíma síðar og var árásarmaðurinn handtekinn strax. 

Árásarmaðurinn var króaður af af lögreglu. Enn hefur ekki verið gefið upp hversu gamall hann er.

„Tuttugu nemendur særðust, með fjóra var flogið í þyrlu á sjúkrahús,“ segir lögreglumaðurinn sem stjórnaði aðgerðum á staðnum. Hann segir að sumir séu alvarlega slasaðir. Tveir fóru strax í aðgerð á sjúkrahúsi.

Flest fórnarlömbin eru á aldrinum 14-17 ára. Búið er að rýma skólann.

Grunnskólum á svæðinu  hefur verið aflýst. 

Frétt mbl.is: Margir særðust í stunguárás

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert