„Þau fundu fyrir sársauka og tóku eftir að þeim blæddi,“ segir Timothy VanFleet, yfirlæknir á bráðdeild háskólasjúkrahússins í Pittsburgh í Pennsylvaníu, sem tók á móti nemendum sem særðist í hnífaárás í bænum Murrysville í dag. Hann segir að fólkið hafi í fyrstu ekki áttað sig á því sem gerðist.
Lögreglustjóri bæjarins segir að unglingspiltur hafi gengið þar berserksgang snemma í morgun. Að minnsta kosti 20 særðust í árásinni sem átti sér stað í Franklin Regional Senior High School í Murrysville, sem er um 25 km austur af miðborg Pittsburgh.
Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn handtakinn, en hann er sagður hafa verið vopnaður tveimur hnífum. Hann særði 19 nemendur og einn öryggisvörð.
Hann réðist á fólk inni í kennslustofum og á gangi skólans. Nemendurnnir sem særðust eru á aldrinum 14-17 ára gamlir en margir hlutu mjög alvarlega áverka.
Sjónvarvottur segist hafa heyrt mikil læti. Þegar hann sneri sér við sá hann tvö ungmenni liggja á gólfinu. Hann hélt að slagsmál hefðu brotist út en svo sá hann blóð leka. Svo sá hann árásarmanninn standa upp og hlaupa í burtu.
Annar sjónarvottur segir að árásarmaðurinn hafi verið mjög þögull er hann stakk nemendurna. Hann hafi hins vegar verið sturlaður á svipinn, hlaupið um og stungið alla sem voru á vegi hans.
Skólanum var lokað í kjölfar árásarinnar.
Lífshættulega slasaðir eftir blóðuga árás