Forseti Úkraínu boðar neyðarfund

Vopnaðir menn hafa ráðist inn í opinberar byggingar í nokkrum bæjum í austurhéruðum Úkraínu í dag. Oleksandr Turchynov, forseti Úkraínu, hefur boðað til neyðarfundar til að ræða þá stöðu sem upp er komin.

Byssumennirnir byrjuðu á því að taka á vald sitt lögreglustöð í bænum Sloviansk. Síðar bárust fréttir af því að vopnaðir menn hefðu tekið yfir nokkrar opinberar byggingar í bænum Druzhkovka. Í Donetsk sagði lögreglustjóri héraðsins af sér eftir að vopnaðir menn umkringdu lögreglustöðina og kröfðust afsagnar hans.

Þeir sem staðið hafa að þessum aðgerðum í dag eru hliðhollir Rússum og andsnúnir nýjum valdhöfum í Kænugarði.

Stór hluti íbúa í austurhluta Úkraínu eru af rússneskum uppruna og talar rússnesku. Þar hefur ítrekað verið efnt til mótmæla eftir að Viktor Yanukovych hrökklaðist úr forsetaembættinu fyrr í vetur.

Það sem nú er að gerast í austurhluta Úkraínu minnir talsvert á það sem gerðist á Krímskaga sem endaði með því að rússneskir hermenn voru sendir inn í Krím. Stjórnvöld í Moskvu sögðu þá að það væri gert til að stilla til friðar og verja rússneska íbúa skagans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka