Dómstóll í Mílanó á Ítalíu dæmdi í dag Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra til eins árs starfa við samfélagsþjónustu vegna skattsvika.
Berlusconi er ennfremur gert að virða útgöngubann að nóttu til auk þess sem ferðafrelsi hans var skert og takmarkað við Lombardíhéraðið. Þarf hann að sækja um sérstakt leyfi til lögreglu þurfi hann að skreppa til dæmis til Rómaborgar.
Ennfremur var honum bannað með dómnum að eiga samskipti við fólk sem dæmt hefur verið fyrir hegningarlagabrot sem þýðir að hann má engin samskipti eiga við a.m.k. einn af nánustu samverkamönnum sínum.
Þetta er enn ein niðurlægingin fyrir hinn 77 ára gamla auðkýfing sem sviptur var þingsæti fyrr á árinu og bannað að bjóða sig fram næstu sex árin.
Að sögn ítalskra fjölmiðla höfðu lögmenn Berlusconi óskað eftir því að honum yrði leyft að gegna samfélagsþjónustu einn dag í viku í miðstöð fyrir fatlað fólk og aldraða í nágrenni villu hans utan við Mílanó.
Með þessu er Berlusconi ekki sloppinn frá réttvísi laganna því enn eru í gangi tvö viðamikil dómsmál á hendur honum.
Berlusconi hefur ætíð lýst yfir hreinu sakleysi í öllum þeim dómsmálum sem efnt hefur verið til gegn honum. Reglulega veitist hann að réttarkerfinu og segir það hafa bruggað launráð gegn sér.