Vilja losna við rússneska skriðdreka

Tvö þýsk dagblöð, Bild og BZ, hafa sett af stað undirskriftasöfnun til stuðnings þess að tveir skriðdrekar af gerðinni T-34, sem eru hluti af minnismerki í Berlín höfuðborg Þýskalands um fallna rússneska hermenn í síðari heimsstyrjöldinni, verði fjarlægðir. Með því vilja blöðin að framgöngu Rússlands í garð Úkraínu verði mómælt.

Fram kemur í frétt AFP að undirskriftasöfnunin hafi hafist í gær en henni fylgi texti á þá leið að á tímum þar sem rússneskir skriðdrekar ógni frjálsri og lýðræðislegri Evrópu sé ekki við hæfi að rússneskir skriðdrekar séu skammt frá Brandenburgar-hliðinu í Berlín þar sem minnismerkið er staðsett. Þá er því mótmælt að hernaðarógn verði á ný notuð í pólitískum átökum í álfunni.

Minnismerkinu var komið þar fyrir árið 1945 við lok styrjaldarinnar og stendur sem fyrr segir skammt frá Brandenburgar-hliðinu í miðborg Berlínar og skammt frá þýska þinghúsinu. Það var reist með stuðningi Breta, Bandaríkjamanna og Frakka og er einkum ætlað að minnast þeirra 80 þúsund hermanna Rauða hersins sem féllu í orrustunni um Berlín vorið 1945.

Minnismerkið var síðar í þeim hluta Berlínar sem var undir stjórn Breta í kalda stríðinu. Samkomulag var hins vegar um að rússneskir hermenn stæðu vörð við minnismerkið allt kalda stríðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert