Sextán ára piltur sem faldi sig við hjólabúnað flugvélar á leið frá Kaliforníu til Hawaii, lifði flugferðina, sem tók fimm klukkustundir, af.
Talsmaður Hawaiian Airlines segir að starfsmenn flugfélagsins hafi ekki tekið eftir piltinum fyrr en vélin lenti á sunnudagsmorgunn.
Alríkislögreglan, FBI, yfirheyrði piltinn. Ástand hans er sagt gott.
Pilturinn strauk að heiman, stökk yfir girðingu á flugvellinum og faldi sig í vélinni.
„Við höfum nú fyrst og fremst áhyggjur af heilsu piltsins sem með ótrúlegri heppni lifði þetta af,“ segir talsmaður flugfélagsins. „Strákurinn er heppinn að vera á lífi,“ segir Tim Simon, talsmaður FBI.
Hann segir að þegar vélin lenti í Maui á Hawaii hafi drengurinn stokkið frá borði og ráfað um flugvöllinn. Hann var ekki með neinn farangur fyrir utan hágreiðu.
Hann lifði af súrefnisskortinn í háloftunum og kuldann er vélin fór upp í 39 þúsund feta hæð. Talsmaður FBI segir að pilturinn hafi verið án meðvitundar mestan hluta ferðarinnar.
Frá árinu 1947 er talið að um 100 laumufarþegar hafi reynt að fela sig við hjólabúnað véla. Meirihluti þeirra lét lífið.