Þúsundir hlaupara búa sig nú undir þátttöku í Boston-maraþoninu síðar í dag. Eftirlit með hlaupinu hefur verið verulega aukið. Í fyrra létust þrír og yfir 260 særðust í sprengjuárás sem gerð var á hlaupið.
Tvær sprengjur sprungu skammt frá marklínu Boston-maraþonsins í fyrra. Þetta hefur ekki dregið úr þátttöku í ár því yfir 36 þúsund hlauparar eru skráðir til leiks, um 9.000 fleiri en í fyrra.
Þá er búist við því að um hálf milljón manna muni fylgjast með hlaupinu af hliðarlínunni. Allir sem ætla að fylgjast með hlaupinu þurfa að fara í gegnum öryggisleit. Þeir mega ekki taka bakpoka með sér, aðeins glæra poka.
Aldrei fyrr hefur öryggiseftirlit verið svo strangt.
Fleiri lögreglumenn, sprengjusveitir og sérsveitarmenn gæta þess að hlaupið fari vel fram og að ekkert komi upp á. Búið er að koma upp um 8.000 stálgirðingum, um 1.200 fleiri en á síðasta ári.
Ríkisstjóri Massachusetts, Deval Patrick, sagði í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina í gær að hlaupið ætti að vera „mjög öruggt.“
Kanadískur hlaupari sagði í samtali við Reuters-fréttastofuna: „Vondir karlar geta ekki tekið þetta hlaup frá okkur og allra þeirra sem taka þátt í því. Það er gott að vera kominn aftur.“
Dzhokhar Tsarnaev, annar þeirra sem stóð að baki sprengjuárásinni í fyrra, mun mæta fyrir dóm í nóvember. Hann er ákærður í 30 liðum. Hann á yfir höfði sér dauðadóm.
Ert þú að fara að hlaupa í Boston-maraþoninu eða þekkir þú einhvern sem er að taka þátt? Vinsamlega sendu ábendingu á netfrett@mbl.is