Vissi ekkert um kynsvall Strauss-Kahn

Anne Sinclair stóð þétt við hlið bónda síns framan af.
Anne Sinclair stóð þétt við hlið bónda síns framan af. mbl.is/afp

Anne Sinclair, fyrrum eiginkona Dominique Strauss-Kahn, hefur ekki tjáð sig um skilnað þeirra vegna kynlífshneykslismála hins fyrrverandi forstjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Það gerir hún hins vegar í samtalsþætti sem sýndur verður á rás-2 franska ríkissjónvarpsins í kvöld.

Þar segist hún enga hugmynd hafa haft um léttúð hans og mætur á kynsvalli. Nokkur mál sem upp spruttu í framhaldi af því að hann var kærður fyrir nauðgun á hótelherbergi í New York vorið 2011 á enn eftir að leiða til lykta og vofir enn fangelsisrefsing yfir honum fyrir hórmang.

Á endanum gerði Strauss-Kahn sátt við hótelþernuna sem hann var sakaður um að hafa knúið til maka við sig. Sakamál á hendur honum var fellt niður en þernan höfðaði einkamál í framhaldi af því og mun Strauss-Kahn hafa borgað henni 1,5 milljónir dollara til að fá það fellt niður.

Anne Sinclair erfði mikil auðæfi og var lengi vel einn þekktasti fréttaþulur í frönsku sjónvarpi. Hún stóð lengi þétt við hlið Strauss-Kahn en þegar mál á hendur honum spruttu upp hvert af öðru frá og með vorinu 2011 fékk hún sig fullsadda. Hún mun hafa aðstoðað hann við að afla fjár til að borga mikinn kostnað vegna málaferla.

Í sjónvarpssamtalinu segist hún ekki hafa verið meðvituð um lauslæti eiginmanns síns, sem misserin fyrir handtökuna þótti afar líklegur til að verða næsti forseti Frakklands.

„Sjáðu til, þú getur trúað mér eða ekki, en ég vissi ekkert,“ segir Sinclair um kynsvallarann Strauss-Kahn.  „Þegar ég giftist Dominique vissi ég að hann var sjarmör og flekari. Svo mikið vissi ég.“ Hún játar að hafa heyrt orðróm um að maður sinn gæti verið þátttakandi í einhverju misjöfnu en sagðist ekki hafa hirt um slíkar sögur.  

„Kjaftasögum er komið á kreik til að eyðileggja, skemma fyrir fólki svo ég lét þær eins og vind um eyru þjóta. Ég hafði efasemdir, sem gerist eins og gengur í sambandi hjóna, og spurði hvort eitt og annað væri satt eða logið. Hann kunni að neita þeim og hvernig hann átti að róa mig,“ segir Sinclair.

Í samtalinu kveðst hún ekki enn trúa því að nokkuð sé til í ásökunum hótelþernunnar á Sofitelhótelinu í New York, Nafissatou Diallo, að eiginmaður sinn fyrrverandi hafi þvingað hana til samræðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka