Vill að eigandinn sæti ábyrgð

Eitt ár er í dag frá því að Rana Plaza, níu hæða fataverksmiðja í Bangladess, hrundi til grunna með þeim afleiðingum að meira en 1.100 verkamenn létu lífið. Ung kona sem lá föst í rústum Rana Plaza í sautján daga segist vona að eigandi hússins verði dreginn til ábyrgðar sem fyrst.

Saumakonan Reshma Begum starfaði í Rana Plaza fyrir minna en jafnvirði fimm þúsund íslenskra króna á mánuði. Aðbúnaðurinn var skelfilegur og Begum nær því að vera þræll en starfsmaður. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst á því eina ári sem liðið er frá hruni Rana Plaza og mótmælum sem fylgdu í kjölfarið segir Begum að enn séu margar saumakonur á lúsarlaunum og sæti illri meðferð á vinnustöðum sínum.

Rana Plaza var fataverksmiðja í nágrenni höfuðborgarinnar Dhaka og hrundi húsið svo skyndilega að enginn tími gafst fyrir verkafólk að flýja. Begum lá þar föst í 17 daga þegar henni var bjargað. Hún lifði á fjórum kexkökum og vatni en treysti aðallega á Allah um björgun.

Í dag er hún komin með nýtt starf, gengin í hjónaband og segist sátt með lífið og tilveruna. Hún myndi þó óska að eigandi hússins, Sohel Rana, sæti ábyrgð fyrir dauða verkafólksins sem fyrst. Hann verður ákærður fyrir að hafa myrt 1.135 einstaklinga, starfsmenn sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert