Lögfræðingur dauðadæmds fanga segir að Clayton Lockett, sem lést úr hjartaáfalli 43 mínútum eftir að aftaka hans hófst í Oklahoma, hafi verið pyntaður til dauða.
Líkt og fram kom á mbl.is í morgun var Clayton Lockett tekinn af lífi í Oklahoma í gærkvöldi. Eitthvað misfórst við aftökuna en fanginn lést nokkru eftir að aftakan var stöðvuð þar sem fanginn skalf allur og hristist. Talið er að bláæð hafi sprungið sem kom í veg fyrir eðlilegt flæði lyfjablöndunnar sem nota átti við að drepa Lockett. Hann var hins vegar úrskurðaður látinn 43 mínútum eftir að byrjað var að dæla í hann banvænu lyfjablöndunni. Dánarorsökin er hjartaáfall.
Samkvæmt frétt Reuters vekur klúðrið í sambandi við aftökuna upp spurningar um þau lyf sem notuð eru við aftökur í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem enn beita þeim.
Þrettán mínútum eftir að læknir byrjaði að dæla banvænu lyfjablöndunni í aftökuklefanum í McAlester lyfti Lockett upp höfðinu og byrjaði að muldra. Læknirinn frestaði aftökunni, segir talsmaður refsistofnunar Oklahoma, Jerry Massie.
Hart hefur verið deilt um þau lyf sem notuð eru við aftökur í Oklahoma og víðar í Bandaríkjunum enda nánast ógjörningur fyrir lögmenn og samtök sem berjast fyrir afnámi dauðarefsinga að fá að vita hvaðan lyfin koma.
Það lyf sem einkum hefur verið notað við aftökur, pentobarbital, annaðhvort eitt og sér eða íblandað öðrum lyfjum, er illfáanlegt eftir að helsti framleiðandi þess, danska lyfjafyrirtækið Lundbeck, fékk að finna til tevatnsins er samtökin Reprieve hófu að herja á stórfyrirtækið.
Lundbeck lét undan þrýstingi og breytti dreifingarkerfi sínu á þann veg að pentobarbital var ekki selt til ríkja sem beittu aftökum.
Í hvert skipti sem ríki í Bandaríkjunum fundu leið til þess að útvega lyf sem notuð eru við aftökur greip Reprieve til sinna ráða - krafðist þess að fá upplýsingar um framleiðendur lyfjanna á grundvelli upplýsingalaga og fekk fjölmiðla í lið með sér. Eða eins og lögmaðurinn Clive Stafford Smith, sem hefur unnið ötullega við að verja fanga sem eiga dauðadóma yfir höfði sér, segir: „Þú getur komið því til leiðar að þeim finnist ekki þess virði að heimila notkun lyfjaframleiðslu sinnar við aftökur.“
Verjendur dauðadæmdra fanga hafa vísað til þess að lyfjablandan sem notuð er í Oklahoma og í öðrum ríkjum geti valdið fanganum miklum kvölum og sé því brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna sem leggur bann við grimmilegum refsiaðferðum.
Þetta getur skipt sköpum í allri umræðunni um dauðarefsingar því fólk fyllist viðbjóði, segir Richard Dieter, framkvæmdastjóri Death Penalty Information Center, sem fylgist með dauðarefsingum í Bandaríkjunum.
„Þetta getur leitt til þess að aftökum verði frestað þar til ríki geta sannað að þau geti framkvæmt þær án vandamála. Það var maður drepinn í kvöld vegna vanhæfni,“ segir Dieter í viðtali við Reuters.
Ziva Branstetter, sem var viðstödd aftökuna í gærkvöldi, sagði í viðtali við MSNBC að Lockett hefði engst sundur og saman og greinilega verið kvalinn. Nokkrum mínútum eftir að vandkvæði komu í ljós við aftökuna voru tjöldin dregin fyrir svo áhorfendur gátu ekki fyglst með því sem gerðist.
Taka átti annan fanga af lífi á dauðadeild í Oklahoma, Charles Warner, tveimur tímum síðar en aftökunni var frestað um tvær vikur. Búið var að setja aftökur beggja, Warners og Locketts, á dagskrá í mars en þeim var frestað vegna deilna um lyfin sem nota átti við aftökuna.
„Í nokkrar vikur hefur Oklahoma neitað að veita grundvallarupplýsingar um lyfin sem nota átti við banvænu innspýtinguna. Í kvöld var Clayton Lockett pyntaður til dauða, segir Madeline Cohen, verjandi Warners í viðtali við Reuters.
Lockett var dæmdur fyrir morð, nauðgun, mannrán og rán ásamt tveimur öðrum. Hann var dæmdur fyrir að hafa skotið Stephanie Nieman og grafið hana lifandi í gröf þar sem hún lést. Foreldrar hennar sendu frá sér tilkynningu í gær eftir aftökuna þar sem þau þökkuðu fyrir þennan dag þegar réttvísinni var loks fullnægt.
Warner, 46 ára, var dæmdur fyrir að hafa nauðgað og myrt ellefu mánaða gamla dóttur unnustu sinnar árið 1997.