Rifust heiftarlega fyrir morðið

Amanda Knox árið 2011.
Amanda Knox árið 2011. AFP

Amanda Knox stakk Meredith Kercher til bana eftir heiftarlegt rifrildi þeirra á milli þar sem Kercher hafði sakað Knox um að stela af sér peningum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfangsmiklum gögnum ítalska dómsstólsins sem birt voru í gær. Knox og fyrrverandi kærasti hennar, Raffaele Sollecito, voru dæmd sek um morðið á Kercher í janúar. Stúlkan var myrt í leiguíbúð sinni árið 2007. Knox og Sollecito voru árið 2011 dæmd í fangelsi fyrir morðið en voru síðar sýknuð. Málið var tekið upp að nýju og þau dæmd sek enn á ný.

Í rökstuðningi dómsins kemur m.a. fram að lífssýni úr þremur einstaklingum hafi fundist á vettvangi morðsins: Knox, Sollecito og Rudy Guede, en sá síðastnefndi er enn í fangelsi vegna morðsins.

Kercher og Knox leigðu saman íbúð á Ítalíu. Kercher er sögð hafa verið orðin þreytt á hegðun Knox og er hún bauð Guede í íbúð þeirra kvöldið örlagaríka sauð upp úr á milli þeirra.

Knox segir í yfirlýsingu að hún hafi verið dæmd saklaus af eina dómstóli Ítalíu sem gerði „sjálfstæða réttarmeinarannsókn á málinu.“ Hún segir að nýju skjölin „muni ekki - og geti ekki - breytt þeirri staðreynd að ég er saklaus.“

Í dómsskjölunum segir að Guede hafi hagað sér dónalega og pirrað Kercher. Guede, Knox og Sollecito hafi í sameiningu ráðist á Kercher með ofbeldi.

Lífssýni úr Guede fundust í líkama Kercher. Dómurinn segir að ásetningur hans hafi verið af kynferðislegum toga en að Knox og Sollecito hafi viljað sanna vald sitt yfir Kercher og viljað niðurlægja hana. Hún var stungin til bana með tveimur hnífum.

Knox hélt á stærri hnífurinn sem stungið var í háls Kercher svo úr blæddi mikið og hún lést, segir í rökstuðningi dómsins.

Sollecito hélt á hinum hnífnum en hann notaði hann til að skera í sundur brjóstahaldara Kercher. 

Lögreglan sem rannsakaði málið hefur ítrekað haldið því fram að morðingjarnir hafi verið að minnsta kosti tveir, m.a. vegna þess að tveir hnífar voru notaðir til að stinga Kercher 47 sinnum.

Kercher fannst látin í blóðpolli í íbúðinni í nóvember árið 2007. Hún var næstum nakin. Saksóknari hélt því fram að Kercher hafi verið drepinn í kjölfar kynlífsleiks sem hafi farið úr böndunum. Þeir töldu að Knox hefði stungið síðustu stunguna og að Sollecito og Guede hefðu haldið Kercher á meðan. 

En dómstólinn í Flórens útilokar þá kenningu og segja ekkert benda til þess að Kercher hafi af frjálsum vilja tekið þátt í slíku.

Nú mun hæstiréttur Ítalíu enn á ný taka málið fyrir.

Knox er nú búsett í heimalandi sínu, Bandaríkjunum. 

Meredith Kercher.
Meredith Kercher. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert