Borgarstjóri Toronto, Rob Ford, er nú á leið í meðferð við áfengisvanda en fyrir um ári var hann hvattur til að fara í meðferð en harðneitaði að fara.
Enn eitt myndskeiðið af Ford hefur nú verið birt á netinu. Það er sagt tekið nýlega og á því má sjá hann reykja það sem talið er vera krakk. Fyrir ári komst annað myndband af slíkri hegðun hans í umferð. Samstarfsfólk hans og fjölskylda hvatti hann þá til að leita sér hjálpar en Ford neitaði og hélt uppteknum hætti. Meðferðarúrræði var einn þriggja kosta sem lagðir voru fyrir borgarstjórann þá.
Ford segist hins vegar ekki vera að fara í meðferð vegna eiturlyfjafíknar heldur áfengisneyslu.
Skrifstofustjóri borgarstjórans segir að þó að Ford sé farinn í meðferð verði rekstur borgarinnar með sama hætti og áður. Ford hefur þó afsalað sér öllum völdum tímabundið eða á meðan meðferðinni stendur. Hann sækist eftir endurkjöri sem borgarstjóri.
Ford er mjög umdeildur en nýtur þó hylli meðal borgarbúa, þrátt fyrir að fréttir af fíkniefnanotkun hans hafi ítrekað ratað í fjölmiðla. Þá hefur hann látið ýmislegt flakka, m.a. móðgað aðra frambjóðendur í borgarstjórnarkosningunum. Gagnrýndi hann m.a. einn fyrir að „styðja alla samkynhneigða“.
„Sem eldri bróðir hans er ég feginn að hann ætli að horfast í augu við vandamál sín og hafi ákveðið að leita sér hjálpar,“ sagði bróðir hand Doug Ford á blaðamannafundi í gær. Átti stóri bróðir erfitt með að halda aftur af tárunum. Í ágúst sagðist hann aldrei hafa séð borgarstjórann bróður sinn bragða áfengi.
„Ég elska bróður minn. Ég mun halda áfram að standa með honum og fjölskylduhans í gegnum þetta erfiða ferðalag.“
Ford sást yfirgefa heimili sitt í gær með stóra ferðatösku. „Þrjátíu dagar eru ekki svarið, held ég,“ sagði lögmaður hans við dagblaðið Star um það hversu lengi Ford yrði í meðferð. „Það er enginn tímarammi. Hvað sem þarf til.“
Diane Ford, móðir borgarstjórans, segist nú átta sig á því að vandi hans felist ekki aðeins í ofþyngd, eins og hún hélt fram í sjónvarpsviðtali í nóvember. „Ég vissi ekki hversu alvarlegt þetta er,“ segir hún nú. „Hann er að gera það sem hann þarf að gera og það er gott.“
Aðstoðarborgarstjóri Toronto, Norm Kelly, segir að líta verði á þetta mál sem „persónulegan harmleik“, ekki sem „kreppu í borgarstjórinni“.
Kelly segist ekki hafa upplýsingar um hversu lengi Ford verði frá störfum. „Hanner að gera það sem ég og fleiri höfum ráðlagt honum í langan tíma.“