Rob Ford, borgarstjóri Toronto, líkir dvölinni á meðferðarheimilinu við dvöl í sumarbúðum. Hann fór í meðferð 1. maí sl. við áfengis- og eiturlyfjavanda og segir nú að meðferð sé undraverð, að vissu leyti svipuð og fótboltasumarbúðir sem hann sótti sem barn.
Ford tók sér hlé frá störfum sínum sem borgarstjóri og fór í meðferð stuttu eftir að myndskeið komst í fjölmiðla sem sýndi hann reykja krakk. „Mér líður vel,“ sagði hann í samtali við Toronto Sun. „Meðferð er undraverð. Þetta minnir mig á fótboltabúðir.“
Borgarstjórinn lýsir daglegum fundum á meðferðarheimilinu. Þar hittist fjórir til átta þátttakendur, læknir og fleiri starfsmenn. Eftir fundina borðar hann og því næst taka við viðtöl þar sem hann ræðir við einn af starfsmönnum heimilisins.
„Fólkið í hópnum mínum er frábært. Við styðjum öll hvert annað. Við tengjumst á furðulegan hátt,“ sagði Ford. Hann vill þó ekki gefa upp hvar hann er í meðferð. „Ég æfi á hverjum degi og læri um mig sjálfan, fortíð mína og annað slíkt.“
Þá segist Ford einnig vera að læra að takast á við reiðina sem hann beindi oft að andstæðingum sínum í stjórnmálunum.