Það voru ekki aðeins nágrannar hinnar 8 ára gömlu Yöru frá Palestínu sem höfðu áhyggjur af henni. Starfsfólk í matvöruverslun í nágrenninu veitti litlu, illa klæddu stúlkunni athygli en Yara reyndi nokkrum sinnum að stela úr búðinni.
Yara var flutt á sjúkrahús í síðustu viku með mikla áverka. Saksóknari í málinu greindi frá því um helgina að hún hefði verið látin þegar sjúkraflutningamenn komu að heimili hennar í Karlskrona í Svíþjóð.
Aftonbladet ræðir við verslunarstjóra matvöruverslunarinnar Willy´s, en hún segist hafa reynt að aðstoða Yöru. „Hún kom oft inn, illa klædd og reyndi að stela rískökum,“ segir Therese Andersson.
Hún segir að Yara hafi oft komið í búðina. „Hún kom alltaf á sama tíma á morgnanna, klukkan 8.15 og gekk beint að hillunni með rískökunum og reyndi að ná í einn pakka og setja í töskuna sína,“ segir Andersson.
Hún segir að þetta hafi vakið athygli hennar. Andersson segist eiga stúlku í sama skóla og hún viti því fyrir víst að skólinn byrji klukkan 8. Yara átti því að vera í skólanum á þessum tíma dags. Andersson segir að hún hafi strax áttað sig í á því að eitthvað bjátaði á hjá stúlkunni. Barn steli sælgæti, en ekki rískökum.
Hún segist hafa rætt við Yöru og boðist til að fylgja henni í skólann. Yara svaraði að kennarinn hennar hefði sagt henni að hún mætti ekki fara neitt með ókunnugum.
Stúlkan hélt áfram að koma í verslunina í nóvember og desember. Hún var ekki vel klædd og virtist vera kalt. „Hún var í þunnum jakka og leggings,“ segir Andersson.
Andersson segist einnig hafa haft áhyggjur af því að stúlkan gengi ein í skólann. „Maður fylgir svona ungum börnum í skólann. Ég hafði áhyggjur af henni,“ segir hún.
Í kjölfarið hafði hún samband við skólann og ræddi við kennarann. „Þau þökkuðu fyrir hjálpina og sögðust ætla að hafa samband aftur. Það gerðu þau og sögðust hafa komið ábendingum mínum á framfæri.“
Yara hætti loks að koma í verslunina. Verslunarstjórinn segist aldrei hafa séð áverka eða marbletti á stúlkunni. Hún segist velta fyrir sér hvort hún ætti að hafa samband við lögreglu vegna málsins en ákvað að treysta starfsfólki skólans til að taka réttar ákvarðanir.
Yara kom ein til Svíþjóðar í fyrra sem flóttamaður frá Palestínu. Til stóð að foreldrar stúlkunnar myndu einnig flytja til Svíþjóðar til að dvelja hjá dóttur sinni og hafði beiðni þess efnis verið send sænskum yfirvöldum.
Nágrannar stúlkunnar höfðu tekið eftir því að hún var stundum illa klædd, þrátt fyrir að kalt væri úti. Hún var stundum ein með tveggja ára dreng og ungbarn, þrátt fyrir að vera aðeins sjö og síðan átta ára. Þá haltraði hún og virtist vera með áverka á fótunum.
Frétt mbl.is: Ber ekki saman um hvað gerðist
Frétt mbl.is: Var látin þegar sjúkrabíllinn kom