Lögreglan í Svíþjóð hafði samband við foreldra Yöru sex dögum eftir að hún lést. Yara var átta ára gömul stúlka frá Palestínu, en frændi hennar, sem fór með forræði hennar, er grunaður um að vera valdur að dauða hennar.
Foreldrar Yöru búa á Gaza-ströndinni, en Yara hafði dvalist hjá ættingjum í Svíþjóð. Hún kom ein til Svíþjóðar í fyrra sem flóttamaður frá Palestínu. Til stóð að foreldrar stúlkunnar myndu einnig flytja til Svíþjóðar til að dvelja hjá dóttur sinni og hafði beiðni þess efnis verið send sænskum yfirvöldum.
Foreldrar Yöru fréttu af dauða dóttur sinnar í gegnum facebook. Það var svo fyrst sex dögum eftir að tilkynnt var um að hún væri látin sem sænska lögreglan ræddi við foreldra hennar í gegnum síma. Mohammed Alnajjar, faðir Yöru, segir að hann hafi ekki fengið neinar upplýsingar um hvernig dauða hennar bar að. Hann segir í samtali við Expressen, að það sé erfitt að búa við þessa óvissu og fá ekkert að vita um hvað gerðist.
Aftonbledet segir að Yara hafi verið látin þegar sjúkraliðar mættu á staðinn. Hún hafi verið með marbletti og svo virðist sem hún hafi verið með gamalt beinbrot.
Félagsþjónustan, skólayfirvöld og lögregla í Karlskrona í Svíþjóð hafa verið gagnrýnt fyrir að bregðast ekki við vísbendingum um að stúlkan byggi við slæmar aðstæður.