Að minnsta kosti fjórir námuverkamenn eru látnir og mörghundruð til viðbótar fastir neðanjarðar, eftir að sprenging varð í kolanámu í Manisa í vesturhluta Tyrklands í dag.
Fram kemur á vef BBC að sprenging hafi orðið í námunni og eldur kviknað í kjölfarið. BBC segir að allt að 20 séu látnir, en Afp segir að minnst 4 séu látnir. Þá segir BBC jafnframt að allt að 300 námumenn séu nú fastir neðanjarðar, en Afp fréttaveitan segir að fjöldinn nemi allt að 400.
Mennirnir eru sagðir fastir á um 2 km dýpi, í um 4 km fjarlægð frá gangamunnanum. Um 580 starfsmenn eru taldir hafa verið í námunni þegar slysið varð en mörgum tókst að sleppa.
Leitar- og björgunaraðgerðir eru nýhafnar á staðnum. Eldurinn er sagður gera björgunarmönnum erfitt fyrir, en súrefni er dælt inn í þá hluta námuganganna þar sem ekki loga eldar.
BBC hefur eftir sérfræðingum að kolanámuiðnaður Tyrklands hafi slæmt orð á sér þegar kemur að öryggi, miðað við önnur iðnaðarlönd. Versta námuslys landsins varð árið 1992, þegar 270 námumenn létu lífið nærri Zonguldak við Svartahafið.