Minnst 17 látnir í námuslysinu

Við námuna í Soma-héraði í Tyrklandi þar sem slysið varð …
Við námuna í Soma-héraði í Tyrklandi þar sem slysið varð í dag. AFP

Yfir 200 námumenn eru enn fastir neðanjarðar í Tyrklandi eftir sprengingu í kolanámu. Staðfest hefur verið að minnst 17 séu látnir.

Björgunarmönnum hefur tekist að hjálpa um 50 mönnum að komast upp á yfirborðið og leggja allt kapp á að komast að hinum 200 sem enn eru króaðir inni.

Talið er að sprengingin í námunni hafi orðið vegna bilunar í straumbreyti. Hundruð manna, flestir starfsmenn námuvinnslunnar og aðstandendur, söfnuðust saman á vettvangi björgunaraðgerða. Mennirnir sem tókst að bjarga út voru margir slasaðir og áttu erfitt með andardrátt vegna ryks og reyks.

Slökkviliðsmenn dæla súrefni inn í göngin vegna þeirra sem þar sitja enn fastir, á um 2 km dýpi í um 4 km fjarlægð frá gangnamunnanum. Afp hefur eftir námuvinnslusérfræðingnum Vedat Didari að súrefnisskortur sé stærsta ógnin við aðstæður sem þessar og að mennirnir sem sitja fastir gætu dáið innan klukkustundar hætti loftræstingin að virka.

Námuvinnslufyrirtækið, Soma Komur, sendi út yfirlýsingu síðdegis þar sem sprengingin var sögð skelfilegt slys. „Slysið varð þrátt fyrir hámarks öryggisráðstafanir- og eftirlit, en við höfum tafarlaust gripið til aðgerða vegna þess,“ sagði í yfirlýsingunni.

Um 580 manns voru í námunni þegar sprengingin varð.

Sjá einnig: Hundruð föst í tyrkneskri kolanámu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert