Námuslysið það versta í sögu Tyrklands

Nú er ljóst að námuslysið sem varð í Tyrklandi í gær er það versta í sögu landsins. 274 eru látnir og reiðin er gríðarleg meðal almennings. Til átaka kom milli þúsunda mótmælenda og óeirðalögreglu bæði í Ankara og Istanbul í dag, og stærsta stéttarfélag landsins hefur boðað verkfall á morgun.

Recep Tayyip Erdogan forsætisráðherra Tyrklands heimsótti Soma-hérað í dag og veittust mótmælendur að bíl hans. Hann hefur hafnað því að ríkisstjórnin beri nokkra ábyrgð. 

Sagður gera lítið úr slysinu

„Við höfum orðið vitni að einu stærsta iðnaðarslysi í sögu landsins á seinni tímum,“ sagði Erdogan eftir heimsókn í námuna í dag.

Hann vottaði aðstandendum samúð sína og sagði að málið yrði rannsakað til hlítar en bætti því þó við að svona hlutir gerist. Þannig virtist hann gera lítið úr alvarleika slyssins, og bar það m.a. saman við önnur námuslys annars staðar með því að benda á að í Bretlandi hefður 204 dáið árið 1862 og 361 dáið þar árið 1864.

„Það er nokkuð til í sögunni sem heitir vinnuslys,“ sagði forsætisráðherrann. Hundruð aðstandenda námumannanna urðu ævareiðir við þessi orð og réðust að bílnum hans með höggum og spörkum þegar hann ók burt.

Enginn fundist á lífi síðan á hádegi

Björgunarmenn eru enn að störfum við námuna en eldar loga enn í göngunum sem gerir þeim erfitt fyrir. Tölur eru enn á reiki, staðfest er að 274 eru látnir og þar af hafa 196 lík verið afhent aðstandendum.

Látnum kann þó að fjölga enn. Enginn hefur fundist á lífi síðan fyrir hádegi í dag og enn er yfir 100 námumanna saknað. 

Stærsta stéttarfélag Tyrklands hefur boðað verkfall á morgun vegna slyssins og segja að þeim sé um að kenna sem boði einkavæðingu með vinnuaðstæðum sem ógni öryggi verkafólks til að draga úr kostnaði. Þá verði að draga til ábyrgðar.“

Opnar grafir í Manisa ætlaðar námumönnunum sem létust.
Opnar grafir í Manisa ætlaðar námumönnunum sem létust. AFP
Mótmælendur létu í sér heyra í Ankara í dag vegna …
Mótmælendur létu í sér heyra í Ankara í dag vegna námuslyssins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert