Verkalýðsfélög í Tyrklandi hafa boðað verkfall í dag til að mótmæla skelfilegasta námuslysi í sögu landsins og að þeirra sögn aðgerðarleysi stjórnvalda. Vitað er að 282 eru látnir en ólíklegt er að nokkur finnist á lífi ofan í námunni. Tugir verkamanna eru enn fastir ofan í námunni sem er við bæinn Soma í Manisa héraði. Náman er í einkaeigu og telja verkalýðsfélög að í kjölfar einkavæðingar námanna hafi vinnuskilyrði í námunum versnað og hættulegri.
Segja forsvarsmenn stéttarfélaga slysið vera afleiðingu einkavæðingar þar sem öllu er fórnað fyrir meiri hagnað. Þúsundir tóku þátt í mótmælum og kom til átaka milli mótmælenda og lögreglu í Istanbul og Ankara í gær.
Þriggja daga þjóðarsorg hófst í Tyrklandi á miðnætti en yfir 700 verkamenn voru ofan í námunni þegar sprenging varð í henni um hádegi á þriðjudag. Samkvæmt opinberum upplýsingum var 363 bjargað upp úr námunni en engum hefur verið bjargað á lífi frá dögun í gær. Stöðva varð björgunaraðgerðir um tíma í morgun vegna þess að hreinsa varð gas út úr námunni.
Þúsundir skyldmenna námumannanna söfnuðust saman við námuna og nærliggjandi spítala í gær. Þá voru hundruð björgunarmanna að störfum. Lofti var dælt inn í þann hluta ganganna þar sem enginn eldur var en einn starfsmaður námunnar í Soma sagði að gasgrímurnar sem námamennirnir bæru dygðu aðeins í 45 mínútur. Orkumálaráðherrann sagði í gær að vonir manna um björgun þeirra sem enn væru í námunni færu dvínandi en ekki væri hægt að útiloka að einhverjum hefði tekist að finna lítil rými þar sem þeir gætu hafst við og dregið andann.
„Þetta var ekki slys, þetta var vanræksla,“ sagði ein fyrirsögn í tyrknesku dagblaði í gær. Þá sögðu gagnrýnisraddir að verkafólk hefði verið skilið eftir við illan aðbúnað í velmegunarkapphlaupi Tyrklands. Erdogan varaði stjórnmálamenn við því að notfæra sér harmleikinn í pólitískum tilgangi en í aprílmánuði höfnuðu stjórnvöld tillögu stjórnarandstöðunnar um að stofna til rannsóknar á tyrkneskum námum í kjölfar ítrekaðra dauðaslysa. Sagði forsætisráðherrann að umrædd náma í Soma hefði staðist öryggisskoðun í mars síðastliðnum.