Stefna að samningi í lok árs 2015

Bandaríkin og Evrópusambandið stefna að því að ljúka viðræðum um fríverslunarsamning í lok árs 2015 en upphaflega var stefnt að því að slíkur samningur lægi fyrir í lok þessa árs. Mögulegur samningur mun þó ekki ná til fjármálageirans þar sem Bandaríkjamenn hafa hafnað því að regluverk Bandaríkjanna og sambandsins á því sviði verði samræmt.

Sendiherra Bandaríkjanna í Brussel, Anthony Gardner, kom þeim skilaboðum á framfæri við viðskiptastjóra Evrópusambandsins, Karel De Gucht, á fundi í Brussel í gær. Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að De Gucht hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum vegna þessa en sambandið hefur lagt mikla áherslu á að mögulegur fríverslunarsamningur nái til fjármálageirans. Bandaríkjamenn hafa hins vegar ekki verið hlynntir því á þeim forsendum að regluverk Evrópusambandsins í þeim efnum gengi skemur en bandarískt regluverk sem sett var í kjölfar alþjóðlegu efnahagskrísunnar.

Fram kemur í fréttinni að viðræður á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um fjármálageirann í tengslum við fríverslunarviðræðurnar hafi ekki skilað miklum árangri. Afstaða Bandaríkjanna komi því ekki á óvart. Ennfremur segir að þetta sé fyrsti málaflokkurinn sem Bandaríkjamenn fari fram á að viðræðurnar nái ekki til en áður hafði Evrópusambandið krafist þess að þær næðu ekki til hljóð- og myndefnis að kröfu franskra stjórnvalda. 

Þurfa að sannfæra almenning

Báðir aðilar viðræðnanna viðurkenndu að á brattann væri að sækja við að sannfæra almenning um ágæti fyrirhugaðs fríverslunarsamnings á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og De Gucht kvartaði yfir því að frambjóðendur til Evrópuþingsins, sem kosið verður til síðar í þessum mánuði, hefðu beint spjótum sínum að viðræðunum. Þá lýsti hann furðu sinni á því að Martin Schulz, frambjóðandi sósíalista til embættis forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og núverandi forseti Evrópuþingsins, hafi kallað eftir því að viðræðunum yrði slegið á frest.

Gardner fór hörðum orðum um gagnrýnendur fyrirhugaðs fríverslunarsamnings og sakaði þá um að dreifa goðsögnum og lygum um hann. Voru þeir De Gucht sammála um að halda ætti vinnu við samninginn áfram þrátt fyrir að ekki væri samstaða um að þær næðu til ákveðinna málaflokka. Stefna ætti að því að ljúka viðræðunum fyrir lok árs 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert