Færeyski fjallagarpurinn Arne Vatnhamar stefnir að því ásamt ferðafélögum sínum að komast upp á topp Everest-fjalls síðar í vikunni. Hann er á meðal fjallgöngumanna sem enn eru á svæðinu og sneru ekki til baka eftir að mannskætt slys varð í fjallinu í síðasta mánuði.
Þá fórust sextán leiðsögumenn, allir sjerpar, í miklu snjóflóði sem féll við Everest á föstudaginn langa.
Íslensku fjallgöngumennirnir Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Axelsson voru stödd í grunnbúðum fjallsins þegar slysið varð, en á meðal þeirra sem létust í slysinu voru þrír úr starfsliði Vilborgar sem ákvað í kjölfarið að klífa ekki fjallið. Ingólfur hætti einnig við.
Fram kemur á færeyska fréttavefnum Portal að Vatnhamar hafi verið í grunnbúðum fjallsins, sem eru í 5.000 metra hæð, undanfarna daga. Hann og félagar hans bíða nú eftir að fá nægilega gott veður til að halda á tindinn en Vatnhamar stefnir að því að komast upp á topp Everest, sem er hæsta fjall heims, þann 24. maí nk.