Gagnrýna aftöku óléttrar konu

Ishag er nú í fangelsi ásamt tuttugu mánaða gömlum syni …
Ishag er nú í fangelsi ásamt tuttugu mánaða gömlum syni sínum og bíður dauðarefsingar. AFP

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum lýstu yfir reiði sinni vegna fyrirhugaðrar aftöku á 27 ára barnshafandi konu sem í síðustu viku var dæmd til dauða í Súdan fyrir trúvillu.

Meriam Yahia Ibrahim Ishag er 27 ára gömul og komin átta mánuði á leið með annað barn sitt. Hún var í síðustu viku dæmd til dauða fyrir trúvillu samkvæmt sjaría-lögum í Súdan. Lögin hafa verið í gildi frá árinu 1983 og samkvæmt þeim liggur dauðarefsing við því að snúa frá íslam.

Var aldrei múslími

„Þessum svívirðilega dómi verður að snúa við og Ishag á að vera sleppt úr haldi undir eins,“ sagði í yfirlýsingunni. Þá var það einnig ítrekað að samkvæmt alþjóðalögum sé dauðarefsing aðeins heimiluð fyrir þá allra alvarlegustu glæpi sem hægt er að fremja. „Það að breyta um trú eða að velja sína trú er ekki glæpur, heldur þvert á móti grundvallarmannréttindi.“

Ishag var fundin sek um trúvillu – eða að hverfa opinberlega frá íslam – trú sem hún aldrei hefur aldrei játað. Hún var dæmd til þess að verða tekin af lífi með hengingu eftir að hafa neitað að „snúa aftur“ til trúarinnar. Faðir Ishag er múslími en móðir hennar kristin. Faðir hennar bjó hins vegar ekki með þeim mæðgum þegar hún ólst upp.

Ishag var einnig dæmd fyrir hórdóm, þar sem hún býr með kristnum eiginmanni sínum, sem hún giftist árið 2012.

Ómannúðleg refsing

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna sögðu réttinn til þess að giftast og stofna fjölskyldu vera grundvallarmannréttindi og lýstu áhyggjum yfir því að Ishag væri nú í haldi ásamt 20 mánaða gömlum syni sínum í dapurlegum aðstæðum í Omdurmans-kvennafangelsinu nærri Khartoum í Súdan. „Fangelsisvist eða dauðarefsing yfir þungaðri konu eða nýbakaðri móður telst óvenjulega grimmileg refsing og leiðir til brots á ákvæðum alþjóðasáttmála um algjört bann við pyndingum eða öðrum ómannúðlegum refsingum,“ sögðu sérfræðingarnir í yfirlýsingu sinni.

Bresk stjórnvöld hafa beðið sendiherra Súdans í Bretlandi að beita stjórnvöld í Súdan þrýstingi um að afturkalla dauðarefsinguna og að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma því til leiðar að Ishag verði sleppt. Þá hafa bresk stjórnvöld gagnrýnt dóminn harkalega og segja refsinguna vera villimannslega. 

Kaþólska St. Matthew's-dómkirkjan í Khartoum í Súdan.
Kaþólska St. Matthew's-dómkirkjan í Khartoum í Súdan. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert