Kínverskur kaupsýslumaður, Liu Han, var í dag dæmdur til dauða í heimalandinu en talið er að hann tengist Zhou Yongkang, fyrrverandi yfirmanni öryggismála í Kína og nefndarmanni í fastanefnd stjórnmálaráðs Kommúnistaflokksins. Zhou sætir rannsókn en hann er grunaður um spillingu.
Liu Han og bróðir hans. Liu Wei, voru fundir sekir um að hafa skipulagt og stýrt glæpagengi sem bar ábyrgð á ýmsum glæpum, þar á meðal morðum, samkvæmt frétt Xinhua.
Á vef BBC kemur fram að bræðurnir séu meðal 36 manna sem ákærðir eru fyrir svipuð afbrot. Talið er að dómurinn yfir Liu Han hafi víðari skýrskotun og tengist stærra spillingarmáli tengdu Zhou.
Liu stýrði áður námasamsteypunni Sichuan Hanlong Group og árið 2012 var hann númer 148 á lista Forbes yfir ríkustu Kínverjana. Fyrirtæki hans reyndi á sínum tíma að yfirtaka ástralska námafyrirtækið Sundance Resources Ltd.
Kínverskir ríkisfjölmiðlar hafa áður greint frá sterkum pólitískum áhrifum glæpagengisins sem Liu tilheyrði.