Þrír féllu í skotárás í Brussel

AFP

Að minnsta kosti þrír féllu og einn særðist alvarlega í skotárás á safni sem tileinkað er Gyðingum í Brussel, höfuðborg Belgíu, í dag. Árásarmaðurinn fór inn í safnið rétt eftir hádegi í dag og hóf skothríð á gesti og gangandi, en fréttaskýrendur segja að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Árásarmaðurinn flúði umsvifalaust í burtu áður en lögregla kom á vettvang.

Nokkrir belgískir ráðherrar voru á svæðinu, þar á meðal Didier Reynders utanríkisráðherra sem kvaðst hafa séð lík bæði karls og konu í anddyri safnsins, að því er segir í frétt AFP.

„Þetta er líklega hryðjuverkaárás. Fyrir okkur er þetta gríðarlega alvarleg árás,“ sagði borgarstjóri Brussel.

Litlar upplýsingar hafa fengist frá lögreglunni í borginni um málið og eru tildrögin enn nokkuð óljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka