Að minnsta kosti þrjátíu aðskilnaðarsinnar hafa látist í átökum á flugvellinum í borginni Donetsk í austurhluta Úkraínu en vopnaðir aðskilnaðarsinnar réðust inn á flugvöllinn aðfararnótt mánudags og hertóku hann.
Var flugvellinum lokað í kjölfar árásarinnar en stjórnarherinn hefur nú svarað með árás úr lofti, segir í frétt BBC.
Petro Porosénko, nýkjörinn forseti Úkraínu, boðaði í gær að áfram yrði barist gegn hryðjuverkaárásum í austri og að þetta ástand sem nú ríkir í landinu eigi að uppræta innan nokkurra klukkutíma ekki mánaða.
Rússar sögðust í gær vera reiðubúnir að eiga viðræður við Porosénko, og rússneskir fjölmiðlar hafa strax dregið mjög úr gagnrýni á hann. En Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að það myndu vera „hrikaleg mistök“ ef ráðamenn í Kænugarði héldu áfram hernaði gegn aðskilnaðarsinnum í austurhéruðunum. Rússar höfðu í gær ekki formlega viðurkennt úrslitin í Úkraínu.