Saksóknarar í Moskvu fóru í gær fram á að þrír menn sem hafa verið dæmdir fyrir morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskaja, verði dæmdir í lífstíðarfangelsi.
Anna Politkovskaja var blaðakona á Novaja Gazeta þar sem hún hafði einbeitt sér að Tétsníustríðinu árin áður en hún var myrt í október 2006. Politkovskaja var einn kunnasti rannsóknarblaðamaður Rússlands og harður gagnrýnandi Vladímírs Pútíns, forseta landsins.
Fjölskylda Politkovskaja og stuðningsmenn hafa fagnað dómi yfir fimmmenningunum en þau telja ekki nægjanlega langt gengið þar sem ekki hefur enn verið greint frá því hver stóð á bak við morðið.
Mennirnir eru Tjetsenar en Rustam Makhmudov, var dæmdur sekur um að hafa skotið hana til bana þegar hún kom inn í fjölbýlishúsið sem hún bjó í eftir að hafa verslað í nærliggjandi matvöruverslun. Eins er farið fram á lífstíðarfangelsi yfir frænda hans, lögregluþjóninn fyrrverandi, Sergei Khadzhikurbanov, og þriðja manninum, Lom-Ali Gaitukayev.
Aftur á móti er farið fram á að bræður Makhmudovs, Dzhabrail og Ibragim, verði dæmdir í 19 ára og 15 ára fangelsi fyrir aðild að morðinu.