Yara verður jarðsett í Svíþjóð

Yara fannst látin á heimili sínu.
Yara fannst látin á heimili sínu. Skjáskot af Expressen.

Fjögurra klukkustunda löng minningarathöfn verður haldin vegna andláts hinnar átta ára gömlu Yöru frá Palestínu. Eftir athöfnina verður hún jarðsett í kyrrþey samkvæmt hefðum múslima. Foreldrar hennar sjá ekki fram á að geta verið viðstödd útförina.

Nú er tæpur mánuður andláti Yöru en hún lést í íbúð í fjölbýlishúsi í Karlskrona. Hún dvaldi hjá móðurbróður sínum og eiginkonu hans. Eiginkonan hringdi og bað um aðstoð en þegar sjúkraflutningamenn komu á vettvang var stúlkan látin. Margvíslegir áverkar fundust á líki stúlkunnar.

Foreldrar Yöru vildu í fyrstu flytja lík hennar til Palestínu og jarðsetja hana þar en nú hefur verið ákveðið að hún verði jarðsett í Svíþjóð. Þau vildu einnig að bekkjarfélagar hennar í Karlskrona gætu kvatt Yöru og verður því boðið upp á minningarathöfn.

Enn liggur ekki fyrir hvort foreldar stúlkunnar fái leyfi til að koma til Svíþjóðar til að kveðja hana. „Ég vil bara jarðsetja dóttur mína. Það er allt sem ég vil, síðan förum við heim,“ sagði faðir Yöru í samtali við Aftonbladet. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert