Hafði verið nauðgað

Frá mótmælum í indversku borginni Allahabad
Frá mótmælum í indversku borginni Allahabad

Í gærmorgun fundust tvær indverskar stúlkur myrtar og hangandi í tré í indverska ríkinu Uttar Pradesh. Nú hefur það verið staðfest af lögreglu að stúlkunum hafði verið nauðgað áður en þær voru myrtar. Stúlkurnar voru frænkur og voru 14 og 15 ára gamlar. Þær höfðu horfið frá heimilum sínum kvöldið áður. 

Einn maður hefur verið ákærður fyrir morðin og tveimur lögreglumönnum vísað úr starfi eftir að þeir skráðu ekki niður tilkynningar þess efni að stúlkurnar væru horfnar.

Samkvæmt lögreglustjóranum Atul Saxena er enn leitað af tveimur öðrum mönnum í tengsl við líkin sem fundust í gær. „Við erum enn að skoða hvernig stúlkurnar hurfu og hvernig þeim var nauðgað og hengdar upp í tré,“ sagði Saxena í samtali við BBC.

Rannsóknir á kynbundnu ofbeldi í Indlandi hafa aukist verulega eftir að 23 ára stúlku var nauðgað af hópi manna í strætisvagni í Delhi árið 2012. Stúlkan sem var sjúkraþjálfunarnemi, lést af áverkum sínum 13 dögum síðar. Í kjölfarið brutust út mikil mótmæli á Indlandi og herti ríkisstjórn landsins lögin við kynbundnu ofbeldi á seinasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert