Kafari drukknaði við björgunarstarf

Frá slysstað.
Frá slysstað. AFP

Suðurkóreskur kafari drukknaði við leit að líkum í ferjunni sem sökk undan ströndum landsins í síðasta mánuði. Um 300 létu lífið í slysinu. Kafarinn var að gera nýtt gat á flak ferjunnar er hann drukknaði.

Kafarinn er 46 ára. Hann var dreginn meðvitundarlaus upp úr sjónum og blæddi þá mikið úr andliti hans. 

Hann var skömmu síðar úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi. Enn er ekki vitað með vissu hvernig slysið varð.

Þetta er annar kafarinn sem lætur lífið í björgunaraðgerðinni. Sewol-ferjan sökk þann 16. apríl undan suðurströnd Suður-Kóreu. Um borð voru 476, aðallega börn og unglingar.

Engin lík hafa fundist frá því 21. maí. Staðfest er að 288 fórust en sextán er enn saknað.

Mjög erfiðar aðstæður eru á svæðinu. Hafstraumar eru þar sterkir og skyggni mjög lélegt í sjónum fyrir kafarana. Margir þeirra hafa slasast eða fengið köfunarveiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert