Neituðu að leita að stúlkunum

AFP

Gríðarleg reiði er í garð lögreglunnar í  Uttar Pradesh ríki á Indlandi en lögreglan neitaði að aðstoða foreldra tveggja stúlkna við leit að þeim eftir að þær hurfu. Þær fundust síðar hangandi í tré og hafði þeim báðum verið nauðgað áður en þær voru myrtar.

Faðir annarrar stúlkunnar segir í samtali við BBC að lögreglan hafi synjað honum um aðstoð vegna þess að hann tilheyrir lægri stéttum þjóðfélagsins. Þrír hafa verið handteknir í tengslum við málið, þar á meðal lögreglumaður.

Fjölskyldur fórnarlambanna, hafa lagt fram kvörtun yfir aðgerðarleysi lögreglunnar við leitina að stúlkunum sem voru 14 og 16 ára gamlar.

Mukul Goelthat , lögreglumaður sem kemur að rannsókninni, segir í samtali við AFP í dag ekki liggi enn ljóst fyrir hvort fórnarlömbin hafi framið sjálfsvíg eða hvort þær hafi verið hengdar af árásarmönnunum. 

Að sögn lögreglu hafa tveir verið handteknir vegna gruns um að hafa nauðgað og myrt stúlkurnar, sem koma báðar úr fátækrahverfi. Eins hefur einn lögreglumaður verið handtekinn vegna gruns um að hafa ekki sinnt skyldu sinni. 

Faðir annarrar stúlkunnar lýsir því fyrir fréttamanni BBC hvernig tekið var á móti honum þegar hann tilkynnti um hvarf dóttur sinnar á lögreglustöðinni. Fyrsta spurningin sem hann fékk var um þjóðfélagsstöðu hans. „Þegar þeir komust að því að ég kæmi úr lægri stéttum þjóðfélagsins sendu þeir mig burtu og neituðu að leita að stúlkunum,“ segir hann í samtali við BBC.

Hafði verið nauðgað

Fjölmörg nauðgunarmál hafa komið upp á yfirborðið á Indlandi undanfarin misseri eftir að umræða um slíka glæpi opnaðist eftir að ungri konu var nauðgað og misþyrmt svo hrottalega í strætisvagni í Nýju-Delí að hún lést af völdum sára sinna.

Móður fórnarlambs misþyrmt vegna kæru

Lögregla í Etawa í Uttar Prades greindi frá því í dag að móðir stúlku sem hafði verið nauðgað hafi verið misþyrmt hrottalega af föður manns sem sakaður er um nauðgunina. Liggur móðirin þungt haldin á sjúkrahúsi en maðurinn réðst á hana eftir að fjölskylda stúlkunnar neitaði að draga kæruna á hendur syni hans til baka.

Maðurinn hefur verið handtekinn fyrir árásina og er fleiri leitað sem tóku þátt í árásinni á móðurina þann 26. maí sl. Lögreglustjórinn, R. K. Chaturvedi, segir  samtali við AFP að hinir árásarmennirnir verði væntanlega handteknir fljótlega.

Samkvæmt NDTV sjónvarpsstöðinni var ráðist á móðurina af fimm mönnum á akri skammt frá heimili fjölskyldunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert