Tilviljun réð því að maður sem hóf skothríð í safni gyðinga í Brussel náðist í fyrrakvöld í Marseille á suðurströnd Frakklands. Hann hafði komið með rútu frá Amsterdam. Tollverðir skoðuðu farangur hans og í ljós komu m.a. 300 skothylki, Kalashnikov-rifill og skammbyssa.
Mehdi Nemmouche, 29 ára, er franskur ríkisborgari. Hann dvaldi í Sýrlandi í yfir ár og hefur lýst skotárásinni í safninu í síðustu viku á hendur sér. Játninguna tók hann upp á myndband sem hann hafði meðferðis er tollverðirnir gómuðu hann.
Franski saksóknarinn François Molins segir að maðurinn sé síbrotamaður og hafi oft komið við sögu lögreglu. Á myndskeiðinu segist hann hafa fest Go-Pro-myndavél við bakpokann sinn og ætlað að taka skotárásina upp. Það hafi hins vegar mistekist.
Í staðinn ákvað hann að taka myndskeið af þeim vopnum sem hann notaði í árásinni. Belgíski saksóknarinn segir að enn sé þó ekki búið að staðfesta að það sé rödd hans sem heyrist á myndskeiðinu.
Nemmouche hefur fimm sinnum verið dæmdur í fangelsi. Með tímanum gerðist hann öfgafullur íslamisti.
Nemmouche er fæddur í norðurhluta Frakklands. Hann dvaldi í Sýrlandi í fyrra í hópi öfgafullra íslamista sem eru þar þátttakendur í stríðinu.
Frétt mbl.is: Frakki í haldi vegna árásar