Lögregla í Belgíu hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa hafið skothríð á safni sem tileinkað er gyðingum í miðbæ Brussel á þriðjudag. Samkvæmt heimildum AFP-fréttaveitunnar er maðurinn frá Frakklandi og tengist hann herskáum íslamistum í Sýrlandi.
Þrír létu lífið í árásinni, hjón frá Ísrael og kona frá Frakklandi. Fjórða fórnarlambið, 24 ára maður frá Belgíu, liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi.
Maðurinn var handtekinn á föstudag og var hann með Kalashnikov-riffil og byssu í fórum sínum. Svipuð skotvopn voru notuð í árásunum. Maðurinn er í haldi lögreglu, grunaður um morð.
Yfirvöld í landinu höfðu birt mynd úr öryggismyndavél á safninu. Myndin sýndi mann með derhúfu og sólgleraugu sem gekk inn á safnið. Hann sótti sjálfvirkan riffil í bakpoka og skaut í gegnum hurð áður en hann fór inn á safnið.