Eftir tæplega fjörtíu ára setu á konungsstóli hefur Jóhann Karl, Spánarkonungur, ákveðið að stíga til hliðar og mun Felipe sonur hans taka við.
Felipe nýtur mikilla vinsælda meðal Spánverja ólíkt föður sínum sem hrapaði í vinsældum þegar fréttist af honum í rándýrri veiðiferð í Afríku á sama tíma og efnahagskreppan skók land og þjóð heima fyrir. Ekki er víst að þjóð hans hefði nokkurn tíma frétt af veiðiferðinni nema fyrir þá sök að konungur datt illa í ferðinni og mjaðmabrotnaði og var fluttur heim með sjúkraflugi.
Kom fyrst til Spánar tíu ára gamall
Jóhann Karl er 76 ára að aldri en hann er fæddur þann 5. janúar árið 1938 í Róm á Ítalíu. Konungurinn var skírður Juan Carlos Alfonso Victor Maria de Borbon y Borbon en foreldrar hans voru Don Juan de Borbon y Battenburg, greifi af Barcelona, þriðji sonur Alfonso XIII Spánarkonungs og Dona Maria de las Mercedes de Borbon y Orleans, prinsessa Sikileyjanna tveggja og greifaynja af Barcelona.
Jóhann Karl ólst að mestu upp fjarri heimahögum og sté ekki fæti á spænska grund fyrr en tíu ára gamall enda Franciscos Francos einræðisherra á Spáni þangað til árið 1975. Það var tveimur dögum eftir andlát Francos sem Jóhann Karl tók við konungstigninni, þann 22. nóvember 1975. Áður hafði hann gegnt herþjónustu og numið lög, alþjóðastjórnmál og fleiri fög við háskóla á Spáni og Sviss.
Þann 14. maí 1962 gekk hann að eiga grísku prinsessuna Sofiu og eiga þau þrjú börn, Elenu, hertogaynju af Lugo, hún er fædd þann 20. desember 1963, Christinu, hertogaynju af Palma de Mallorca en hún er fædd þann 13. júní 1965 og Felipe krónprins, sem er fæddur þann 30. janúar árið 1968.
Lengi framan af naut Jóhann Karl og fjölskylda hans mikillar hylli meðal landsmanna sem margir þökkuðu honum að hafa leitt þjóð sína á farsælan hátt frá einræði til lýðræðis. En heldur tók að draga úr vinsældum fjölskyldunnar fyrir nokkrum árum þegar hneykslismál tengd henni komu upp á yfirborðið.
Má þar helst nefna lúxusferðalag Jóhann Karls til Botsvana þar sem hann fór á fílaveiðar í apríl 2012 á sama tíma og fjórðungur Spánverja var án atvinnu og kreppan í algleymi með öllum sínum hörmungum fyrir hinn óbreytta Spánverja. Veiðiferðin komst í fjölmiðla þegar konungurinn slasaðist og mjaðmarbrotnaði. Þurfti að flytja hann með flugi til heimalandsins, einungis nokkrum vikum eftir að hann hafði lýst því yfir að hann væri andvaka af áhyggjum af atvinnuleysi ungs fólks á Spáni.
Spillingarmál setja svartan blett á farsælan feril
Ekki bætti úr skák að tveimur árum áður hófst rannsókn á tengdasyni konungshjónanna, Inaki Urdangarin, eiginmanni Cristinu sem sakaður hefur verið um hafa dregið sér fé úr opinberum sjóðum. Cristina hefur einnig verið bendluð við mál eiginmannsins, sem var þekktur handboltamaður hér á árum áður.
Þrátt fyrir fallandi vinsældir er eldri kynslóðin ekki búin að gleyma því sem konungurinn gerði fyrir þjóð sína á erfiðum tímum. Meðal annars að með því að gera drauma þeirra sem aðhylltust einræði að engu með því að standa á bak við samþykkt á nýrri stjórnarskrá árið 1978 þar sem þingbundnu lýðræði var komið á.
Þótti bregðast hárrétt við valdaránstilraun
Eins þótti hann taka vel á málum þegar tilraun var gerð til valdaráns árið 1981 þegar hermenn ruddust inn í þinghúsið og héldu þingmönnum í gíslingu í nokkra klukkutíma. Þá kom Jóhann Karl fram í sjónvarpi og ávarpaði þjóð sína og hermenn sem tóku þátt í valdaránstilrauninni þar sem hann hvatti til stuðnings við lýðræðiskjörna ríkisstjórn landsins. Lagði hann áherslu á frelsi og stjórnarskrá landsins og er talið að hann hafi unnið þrekvirki með þessu fjögurra mínútna langa ávarpi sínu. Síðar sagði Jóhann Karl sjálfur að hann hefði vitað að herforingjarnir myndu fara að óskum hans þar sem Franco sjálfur hefði tilnefnt hann sem sinn arftaka auk þess sem hann þekkti flesta þá sem stóðu að valdaráninu frá þeim tíma sem hann var þeirra yfirmaður í hernum.
Jóhann Karl og Sofía vöktu einnig mikla athygli í mars 2004 eftir hryðjuverkaárásina í Madrid þegar um 100 kg af sprengjuefni var komið fyrir á þremur lestarstöðvum. Tæplega 200 létust og um 1500 særðust í árásinni. Við minningarathöfnina gleymdu konungshjónin öllu sem nefnist siðareglur og föðmuðu fjölskyldur fórnarlambanna innilega.
En heilsubrestur Spánarkonungs hefur ítrekað verið ræddur í fjölmiðlum undanfarin ár. Á tímabilinu maí 2010 til nóvember 2013 hefur hann þurft að fara níu sinnum undir skurðarhnífinn.
Tók ákvörðun í janúar
Í skoðanakönnun sem El Mundo birti í janúar kom í ljós að einungis 41% spænsku þjóðarinnar studdi konung sinn. Þrátt fyrir að hafa ekki tilkynnt um að hann hygðist afsala sér völdum fyrr en í dag þá greinir ABC sjónvarpsstöðin frá því að hann hafi tekið þessa ákvörðun í janúar og tilkynnt forsætisráðherra, Marianio Rajoy, hana í mars. Undirbúningur undir valdaafsalið sé því löngu hafið innan konungsfjölskyldunnar en eftir því hefur verið tekið að Felipe og eiginkona hans, Letzia, hafa verið áberandi við opinber embættisstörf undanfarið.
Krónprinsinn nýtur töluverðra vinsælda meðal almennings enda hefur hann verið laus við að tengjast hneykslismálum ólíkt systur sinni og föður. Felipe er menntaður lögfræðingur en hann nam bæði við háskóla í heimalandinu og Kanada. Hann keppti fyrir hönd Spánar í siglingum á Ólympíuleikunum í Barcelona.
Fyrsta almúgakonan sem verður drottning Spánar
Felipe og Letzia Ortiz gengu í hjónaband sumarið 2004 en hún starfaði áður sem fréttaþula á spænsku ríkissjónvarpsstöðinni TVE en vann áður á blaðamennskuferli sínum fyrir dagblaðið ABC og sjónvarpsstöðina CNN plus. Hún gekk að eiga einn fyrrverandi kennara sinna árið 1999 en skildi ári síðar.
En þetta er í fyrsta sinn sem kona af almúgaættum tekur við krúnunni á Spáni, samkvæmt fréttum fjölmiðla í dag. Þau eiga tvær dætur Leonor, sem er fædd þann 31. október 2005 og Sofiu sem er fædd þann 29. apríl 2007.
Jóhann Karl ávarpaði þjóð sína í sjónvarpi í dag þar sem hann sagði að það væri tími kominn til þess að yngri kynslóðin taki við. Í ávarpinu, sem var fimm mínútna langt, þakkaði hann spænsku þjóðinni fyrir stuðninginn í gegnum tíðina.
„Felipe sonur minn er holdtekja stöðugleika. Hann býr yfir þeim þroska og ábyrgð sem nauðsynleg er til þess að taka við sem æðsti maður ríkisins og hefur verið undirbúinn undir það.“