Þarf að sanna faðerni með DNA prófi

Daniel Wani, með dóttur sína Mayu í kvennafangelsinu í Khartoum.
Daniel Wani, með dóttur sína Mayu í kvennafangelsinu í Khartoum. AFP

Bandarískur eiginmaður konunnar sem dæmd var til dauða fyrir guðlast og hórdóm í Súdan gæti þurft að reiða fram DNA sönnun fyrir því að hann sé faðir tveggja barna þeirra. 

Talskona utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Jen Psaki, viðurkenndi í dag bandarískan ríkisborgararétt Daniel Warni, og sagði að bandaríska sendiráðið í Khartoum í Súdan myndi veita honum aðstoð.

Wani hitti embættismenn fyrr í dag og sagði Psaki að utanríkisráðuneytið hefði verið í sambandi við hann síðan í júní 2013 og að reglulegt samband hefði verið þeirra á milli á meðan réttarhöldunum yfir eiginkonu hans stóð.

Eiginkona hans, Merian Ibrahim, sem er kristin, líkt og eiginmaður hennar, var dæmd til dauða þann 15. maí síðastliðinn samkvæmt sharia lögum sem hafa verið í gildi síðan árið 1983 og gera það að dauðasök að hverfa frá íslam.

Í síðustu viku, á meðan hún sat í fangelsi, fæddi hún stúlkubarn sem er annað barn þeirra hjóna. Tuttugu mánaða gamall sonur þeirra er einnig í fangelsinu með þeim.

Pskai segir ráðuneytið þó ekki hafa nægar upplýsingar sem þarf til þess að veita börnunum tveimur bandarískan ríkisborgararétt. Hún segir líffræðileg tengsl þurfa að vera á milli barns og foreldris til þess að ríkisborgararéttur verði veittur.

Yfirvöldum er heimilað að afla upplýsinga sem teljast nauðsynlegar til þess að staðfesta tengslin og getur DNA próf hjálpað þar til.

Dómurinn yfir Ibrahim hefur vakið mikla reiði á alþjóðavettvangi og kallaði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hann meðal annars villimannslegan.

Þá sagði Psaki að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefði þungar áhyggjur af málinu og að hann myndi halda áfram að vinna í málinu.

Frétt mbl.is: Ekki búið að ákveða að náða móður­ina

Frétt mbl.is: Gagnrýna aftöku óléttrar konu

Frétt mbl.is: Dæmd til dauða fyrir trúvillu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert