Vinsæll krónprins tekur við völdum

Spánverjar horfa nú til nýrra konungshjóna eftir að Jó­hann Karl Spán­ar­kon­ung­ur ákvað að láta af völdum eftir 39 ára setu á valdastóli. Sonur hans, Felipe krón­prins, tek­ur við konungs­tign­inni.

Hinn hávaxni Felipe er fyrrverandi ólympískur siglingamaður og mun hann setjast í hásætið ásamt konu sinni Letziziu, sem er fyrrverandi fréttamaður og verður þar með fyrsta Spánardrottningin af „almúgaættum“.

Jóhann Karl Spánarkonungur sagði í ræðu sinni fyrr í dag er hann tilkynnti um afsögn sína að ný kynslóð verðskuldaði nýja orku á fremstu víglínum.

Ólíkt föður sínum nýtur Felipe mik­illa vin­sælda meðal Spán­verja en samkvæmt skoðanakönnunum bera um 66% Spánverja jákvæð viðhorf til krónprinsins. Sérfræðingar segja hann þó eiga erfitt verk fyrir höndum, þar sem efnahagskreppan hefur leikið þjóðina grátt og atvinnuleysið er um 26%.

Sá elsti til að taka við krúnunni

Felipe var fæddur í Madríd þann 30. janúar árið 1968 og er yngsta barn konungshjónanna sem eiga tvær aðrar dætur, Elenu prinsessu og Kristínu prinsessu. Hann verður þó elsti konungurinn til þess að taka við spænsku krúnunni, en metið tilheyrir nú langafa hans, Carlos III (1716 - 1788) sem var 43 ára er hann tók við völdum.

Hann giftist eiginkonu sinni, Letiziu Ortiz Rocasolano, sem þá var fráskilin fréttaþulur, þann 22. maí 2004. Þau eiga tvær dætur Leonor, sem verður níu ára í október og Sofíu sem er sjö ára.

Felipe gekk í herskóla á árunum 1985 til 1989 og útskrifaðist sem þyrluflugmaður. Þá keppti hann á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992 í siglingum og var fánaberi Spánar á opnunarhátíð leikanna. Liðið hans lenti í sjötta sæti.

Árið 1993 útskrifaðist Felipe úr lögfræði í Autonomous háskólanum í Madríd og fór í kjölfarið í framhaldsnám í Georgetown háskólanum í Washington þar sem hann lagði áherslu á nám í alþjóðatengslum.

Frétt mbl.is: Dýr­keypt fall á kon­ungs­stóli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert