Gary Glitter ákærður fyrir barnaníð

Gary Glitter.
Gary Glitter.

Breska poppgoðið Gary Glitter verður ákært fyrir barnaníð í átta liðum. Elstu málin eru yfir þrjátíu ára gömul. Þetta sagði saksóknari í dag.

Glitter er sjötugur. Hans raunverulega nafn er Paul Gadd. Hann var handtekinn í október árið 2012 í umfangsmikilli aðgerð lögreglunnar sem náði um allt land í kjölfar þess að upp komst um kynferðisbrot fjölmiðlamannsins Jimmy Savile.

Glitter var síðar sleppt gegn tryggingu.

Baljit Ubhey, saksóknari bresku krúnunnar sem fer með málið, segir að Glitter verði ákærður fyrir að brjóta gegn tveimur stúlkum á árunum 1977 og 1980. Stúlkurnar voru þá tólf og fjórtán ára gamlar. Á þessum árum var Glitter á hátindi ferils síns sem vinsæl poppstjarna.

Málið verður tekið fyrir í London 19. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert