Fyrrverandi franskur hermaður, sem var yfirheyrður vegna morðanna í frönsku Ölpunum í september árið 2012, hefur svipt sig lífi.
Franski saksóknarinn Eric Maillaud segir í samtali við AFP-fréttastofuna, að hermaðurinn fyrrverandi hafi skilið eftir sex blaðsíðna sjálfsvígsbréf þar sem m.a. kemur fram að hann hafi tekið yfirheyrslurnar mjög nærri sér.
„Honum leið eins og það væri verið að kenna honum um. En það er ekki eina ástæðan fyrir því að hann gerði þetta,“ segir Maillaud.
Maðurinn var fimmtugur. Hann hafði ekki stöðu grunaðs manns í málinu. Hann fannst látinn á heimili sínu í suðausturhluta Frakklands á þriðjudag.
Maillaud segir að maðurinn hafi verið yfirheyrður í tvær klukkustundir í apríl árið 2013 vegna dauða Sylvain Mollier, reiðhjólamannsins sem var skotinn til bana er hann kom að bíl hjónanna sem voru drepin skammt frá Annecy í Frakklandi.
Saad al Hilli var skotinn til bana í bíl sínum. Eiginkona hans og tengdamóðir voru einnig drepnar. Dætur hjónanna, Zainab og Zeena, lifðu árásina af.