Lögregla beitti táragasi til þess að dreifa mótmælendum sem voru saman komnir til að lýsa yfir stuðningi við verkfall neðanjarðarlestarstarfsmanna í borginni Sao Paulo í Brasilíu í morgun. Óeirðirnar eru að aukast þegar aðeins þrír dagar eru í opnunarleik HM í fótbolta.
Um 150 mótmælendur kveiktu í rusli á götunni og lét lögreglan þá til skarar skríða þar sem um tuttugu óeirðalögregluþjónar þurftu að beita höggsprengjum og táragasi til þess að dreifa mótmælendunum. Lögreglan réðst einnig gegn 70 lestarstarfsmönnum sem fóru inn í lestarstöð í þeim tilgangi að fá yfirmenn sína til að taka þátt í verkfallinu.
Mómælendur voru ekki lengi að hópa sig saman á nýjan leik og hrópuðu: „Það verður engin keppni, það verður verkfall!“
Um eitt þúsund manns voru mættir til þess að taka þátt í mótmælunum en mannfjöldinn gekk fylktu liði að samgöngustofnuninni veifandi rauðum borðum, berjandi á trommur og blásandi í vuvuzela-lúðra.
Mótmælendur styðja verkfall lestarstarfsfólksins sem lagði niður vinnu fyrir fimm dögum. Verkfallið hefur valdið töluverðum truflunum í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar og er líklegt til þess að valda truflunum á fimmtudag þegar opnunarleikur mótsins fer fram á milli Brasilíumanna og Króata.
Starfsmennirnir héldu atkvæðagreiðslu í gær og kusu að halda verkfallsaðgerðum áfram þrátt fyrir að dómur hafi fallið í gær þar sem kveðið er á um dagsektir á starfsmenn ef verkfallinu verður haldið áfram. Sektin hljóðar upp á 222 bandaríkjadali.