Elska fótbolta en fyrirlíta stjórnvöld

Það gengur á ýmsu í Brasilíu örfáum dögum áður en Heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefst. 18 af 32 landsliðum eru komin til landsins og er fagnað af aðdáendum en reiði heimamanna gagnvart stjórnvöldum skyggir þó á gleðina.

Í Rio de Janeiro leggur nú hópur listamanna allt kapp á að skreyta götur borgarinnar að eigin frumkvæði í fánalitunum. Innan um málaðar myndir af fótboltaköppunum má þá sjá pólitíska ádeilu.

„Við gerðum þessar skopmyndir til þess að sýna fólki að við styðjum landsliðið okkar, en á ábyrgan hátt,“ segir Daniel da Silva Macedo, skipuleggjandi götulistamótmælanna, við AFP. „Við elskum fótbolta en hötum það sem ráðamenn hafa gert. Þau eyða mun meiri peningum en nauðsynlegt er og fara fram úr sér. Brasilíumenn hafa fengið nóg af því að láta ræna sig.“

Kostnaður ríkisins langt fram úr áætlun

Alls verður keppt á 12 mismunandi leikvöngum víða um landið og hafa miklar tafir orðið á fimm þeirra, sem hefur m.a. valdið því að kostnaður við mótið fór langt fram úr áætlun. Brasilíumenn eru æfir, en áætlað er að HM 2014 kosti brasilíska skattgreiðendur um 11 milljarða Bandaríkjadala.

Óvíða í heiminum er breiðara bil milli ríkra og fátækra og telja margir Brasilíumenn að peningunum hefði betur verið varið í heilbrigðis- og menntakerfi landsins, sem milljónir fátækustu íbúa landsins hafa lítinn sem engan aðgang að.

Þá hafa mörg verkalýðsfélög staðið fyrir mótmælum og verkföllum í aðdraganda heimsmeistaramótsins, nú síðast neðanjarðarlestarstarfsmenn í Sao Paulo, þar sem opnunarleikurinn milli Brasilíu og Króatíu fer fram á fimmtudag. Óeirðalögreglan beitti táragasi gegn mótmælendum í borginni í dag.

Forsetinn boðar mikla veislu

Enska landsliðið leikur sinn fyrsta leik í Rio og lenti í borginni litríku í morgun. Þýska landsliðið lenti líka í Brasilíu í dag, í borginni Salvador, og var fótboltaköppunum fagnað af nokkur hundruð aðdáendum. Þar með eru 18 af 32 liðum komin til landsins, en stjórnvöld eru í kappi við tímann að leggja lokahönd á undirbúninginn.

Um 20 milljónir manna starfa í Sao Paulo, og von er á 60.000 áhorfendum á opnunarleikinn þar á fimmtudag. Miklar tafir hafa orðið á framkvæmdum við Kórinþu-leikvanginn, þar sem HM 2014 hefst, og nú um helgina vann verkafólk hörðum höndum að því að koma fyrir áhorfendapöllum, flóðlýsingu og öðru. Að sögn AFP eru ísskápar og sófar fyrir VIP-herbergin enn í plastinu við leikvanginn.

Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, hefur vísað gagnrýni vegna fjárausturs í mótið á bug með fullyrðingum um að það sé fjárfesting sem muni borga sig til framtíðar. Að heimsmeistaramótinu loknu verði eftir nútímavæddir alþjóðaflugvellir og samgöngubætur sem komi sér vel fyrir almenning.

Ekki hefur þó orðið af ýmsum umbótum á vega- og lestakerfinu sem stjórnvöld lofuðu, en Rousseff hvetur landa sína til að „sýna hve Brasilía er gott fordæmi um hamingju, styrk og kurteisi“.

„Ég er sannfærð um að heimsmeistaramótið verður algjör veisla. Það er algjört grundvallaratriðið að almenningur, Brasilíumenn, hafi rétt á því að njóta þessarar miklu veislu.“

Mótmælendur í Sao Paulo í Brasilíu klæddu sig upp í …
Mótmælendur í Sao Paulo í Brasilíu klæddu sig upp í fánalitina og stilltu sér upp framan við óeirðalögreglumenn. Gríðarlegar umferðartafir hafa orðið vegna mótmæla í borginni, þar sem HM 2014 verður sett á fimmtudaginn. AFP
Unnið að frágangi við Kórinþu-leikvanginn í Sao Paulo, þar sem …
Unnið að frágangi við Kórinþu-leikvanginn í Sao Paulo, þar sem opnunarleikur HM 2014 fer fram fimmtudaginn 12. júní. AFP
Vopnaðir hermenn standa vörð við Mane Garrincha þjóðarleikvanginn í höfuðborginni …
Vopnaðir hermenn standa vörð við Mane Garrincha þjóðarleikvanginn í höfuðborginni Brasilíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert