74 skólaskotárásir eftir Newtown

Á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru síðan fjöldamorð var framið í Sandy Hook-grunnskólanum í Newtown í Connecticut hafa 74 skotárásir verið gerðar í bandarískum skólum. Barack Obama kallaði í dag eftir því að bandaríska þjóðin legðist í sjálfsskoðun, eftir þriðju skólaskotárásina á tæpri viku.

Vopnaður maður skaut í dag nemanda til bana í gagnfræðaskóla í Troutdale í Oregon. Hann lét sjálfur lífið, en ekki hefur enn verið gefið upp hvort hann féll fyrir eigin hendi eða var skotinn af lögreglu. Rannsókn málsins er á frumstigi, lögregla telur sig vita hver maðurinn er en segir ótímabært að nafngreina hann.

Hátt í 40 árásir það sem af er þessu ári

Aðeins 5 dagar eru síðan stúdent var skotinn til bana á skólalóð Pacific-háskólans í Seattle, en sú árás kom strax í kjölfar þess að 10 ára gömul stúlka í Wisconsin særðist alvarlega þegar skotbardagi braust út á leikvelli grunnskóla.

Allt í allt hafa 74 skotárásir verið gerðar í skólum í Bandaríkjunum síðan 27 voru myrtir, þar af 20 börn, í Newtown í desember 2012. Helmingur þessara árása voru á þessu ári, þótt aðeins rúmir 5 mánuðir séu liðnir.

Samtökin „Everytown for Gun Safety“ benda á þetta, en þau berjast fyrir því að skotvopnalöggjöf Bandaríkjanna verði hert. Í kjölfar fjöldamorðanna í Newtown gerði Barack Obama tilraun til þess að herða löggjöfina en frumvarp þess efnis komst ekki í gegnum þingið.

Samtökin telja aðeins með atvik þar sem skoti var hleypt af annaðhvort inni í skólabyggingu eða á skólalóð. Á listanum eru því ekki talin með tilfelli þar sem nemendur tóku með sér byssur í skólann, án þess að hleypa af, og heldur ekki skotárásir nálægt skólalóðum, eins og í Santa Barbara í maí þar sem stúdent drap 6 manns í nágrenni háskólalóðar.

Mestu vonbrigði Obama á ferlinum

Obama hélt ávarp í Hvíta húsinu í dag í kjölfar árásarinnar í Oregon. Hann sagði að tíðni slíkra skotárása í Bandaríkjunum væri út úr kortinu og langt umfram það sem nokkurt annað þróað ríki myndi samþykkja hljóðalaust.

Hann lýsti vonbrigðum sínum með það hve lítill hljómgrunnur virðist vera fyrir hertri skotvopnalöggjöf. „Við erum eina þróaða ríki veraldar þar sem svona hlutir gerast, og þeir gerast einu sinni í viku,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Hann sagðist virða stjórnarskrárvarinn rétt fólks til að verja sig, en sagði það með öllu órökrétt að ekki sé hægt að innleiða jafnsjálfsagðan hlut og bakgrunnsathugun á fólki áður en það fær að kaupa sér skotvopn.

„Þessi þjóð verður að leggjast í sjálfsskoðun um þetta mál. Þetta er að verða normið, við tökum því sem gefnu og fyrir mig sem foreldri er það óhugnanleg staðreynd,“ sagði Obama.

Hann viðurkenndi jafnframt að það væru verstu vonbrigðin á ferli hans sem forseta hingað til að hafa ekki náð í gegn frumvarpi um breytingu á skotvopnalöggjöfinni. Honum hafi í raun fundist það ótrúlegt að slík breyting fengist ekki samþykkt, eftir harmleikinn í Newtown. 

Obama sagði að eina leiðin til að breyta þessu væri ef almenningsálitið hefði áhrif á þingmenn, sem væru skelfingu lostnir gagnvart völdum skotvopnasamtakanna NRA. Hann gagnrýndi málflutning talsmanna þeirra um að rót vandans væri í raun skortur á meðferð við geðsjúkdómum.

„Bandaríkin hafa engan einkarétt á brjáluðu fólki. Við erum ekki eina landið þar sem fólk glímir við geðveiki en þrátt fyrir það drepum við hvert annað í skotárásum sem eru tíðari hér en nokkurs staðar annars staðar. Hvar liggur þá munurinn? Munurinn er sá að hér geta þessir náungar komið sér upp skotvopnabirgðum inni á heimilinu.“

Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti vonbrigðum sínum með tregðu Bandaríkjamanna til …
Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti vonbrigðum sínum með tregðu Bandaríkjamanna til að herða skotvopnalöggjöfina, eftir enn eina skólaskotárásina í dag. AFP
Nemendur og foreldrar Reynolds-gagnfræðaskólans í Troutdale í Oregon eru í …
Nemendur og foreldrar Reynolds-gagnfræðaskólans í Troutdale í Oregon eru í áfalli eftir skotárásina í skólanum í dag. AFP
Nemendur og foreldrar Reynolds-gagnfræðaskólans í Troutdale í Oregon eru í …
Nemendur og foreldrar Reynolds-gagnfræðaskólans í Troutdale í Oregon eru í áfalli eftir skotárásina í skólanum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka