Deila um hvort offita sé fötlun

Offita - Deilt er um það í Evrópudómstólnum í Lúxemborg …
Offita - Deilt er um það í Evrópudómstólnum í Lúxemborg hvort offita skuli skilgreind sem fötlun. AFP

Evrópudómstóllinn fer um þessar mundir með mál sem gæti haft mikið fordæmisgildi og skyldað atvinnurekendur til að meðhöndla offitu sem fötlun.

Danski leikskólastarfsmaðurinn Karsten Kaltoft er um 160 kíló að þyngd og segist hafa verið rekinn fyrir að vera of feitur. Hann hafi orðið svona feitur vegna „slæmra venja“ og að stærð hans sé „ekki vandamál“ í vinnunni. Hann tók ekki undir með heimildum BBC sem greindu frá því að hann hafi verið of feitur til að beygja sig niður til að binda skóreimar barnanna. „Ég sé sjálfan mig ekki sem fatlaðan. Við vonum að útkoman verði sú að það sé ekki í lagi að reka fólk fyrir að vera feitt,“ sagði hann.

Vinnuveitandi Kaltoft hafði brugðið á það ráð að borga honum fyrir að fara í ræktina áður en til þess kom að segja honum upp. „Ég hljóp engin maraþon, en það gekk ágætlega,“ sagði Kaltoft. Við uppsögn eftir 15 ára vinnu fékk hann þá skýringu að börnunum hafi farið fækkandi en ekki var tekið fram hvers vegna hann varð fyrir valinu.

Danski dómstóllinn skaut málinu til Evrópudómstólsins en úrskurður hans gæti orðið bindandi fyrir gervallt Evrópusambandið. Málið þykir sérstaklega merkilegt í ljósi þess að offita hefur færst í aukana undanfarin ár, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ef dómendur komast að þeirri niðurstöðu að um fötlun sé að ræða gætu atvinnurekendur þurft að horfast í augu við nýjar skyldur gagnvart starfskrafti sínum. Þeim gæti t.d. borið skylda til að taka frá sérstök bílastæði fyrir offitusjúklinga eða aðlaga skrifstofuhúsgögn að þeirra þörfum.

„Þeir þurfa að ákveða hvort offita sem slík veiti téð réttindi eða hvort það hafi aðeins áhrif ef einstaklingurinn sem um ræðir hafi orðið fyrir annarskonar, læknisfræðilega viðurkenndum skaða sökum offitu,“ sagði Audrey Williams, lögfræðingur sérhæfður í mismunun á vinnustað. 

Dómendur þurfa því að ákveða hvort tilskipun Evrópusambandsins um jafnrétti á vinnustað nái yfir offitu sem fötlun eða ekki.

Breska ríkisútvarpið, BBCgreindi frá fréttinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert