Schumacher kinkaði kolli í sjúkrabílnum

Michael Schumacher kinkaði kolli og hélt augunum opnum.
Michael Schumacher kinkaði kolli og hélt augunum opnum. EPA

Michael Schumacher, ökuþórinn knái sem vaknaði nýlega úr löngu dái á sjúkrahúsi í Grenoble í Frakklandi, kinkaði kolli og gat haldið augunum opnum þegar hann var fluttur með sjúkrabíl frá Grenoble til Lausanne í Sviss fyrr í vikunni.  

The Telegraph greinir frá þessu og hefur eftir fjölmiðlum í Sviss. Schumacher er sagður hafa tjáð sig við lækna og sjúkraflutningamenn á leiðinni frá Ítalíu til Sviss en leiðin er tæpir 200 kílómetrar.

Fregnir bárust af því á mánudag að Schumacher, 45 ára, væri vaknaður úr löngu dái. Hefur hann nú verið fluttur frá sjúkrahúsinu í Grenoble þar sem hann hefur notið aðhlynningar vegna höfuðáverka sem hann hlaut er hann féll á skíðum í desember á síðasta ári. Hefur hann verið fluttur á endurhæfingarstöð í Sviss.

Talaði ekki í sjúkrabílnum

Ökuþórinn talaði ekki á meðan á flutningnum stóð en gat þó tjáð sig við lækna og sjúkraflutningamenn með því að kinka kolli. Richard Franckowiak, forstjóri endurhæfingarstöðvarinnar þar sem Schumacher mun dvelja í Sviss, sagði að flutningur sjúklingsins hefði gengið mjög vel.

Lögð verður áhersla á að virða einkalíf Schumachers og fjölskyldu hans á meðan á meðferð hans stendur. Endurhæfingarmiðstöðin er í tæplega 40 kílómetra fjarlægð frá heimili hans, Corinnu eiginkonu bans og barna þeirra. Franckowiak telur að ekki þurfi að kalla til sérfræðinga utan endurhæfingarmiðstöðvarinnar vegna endurhæfingar Schumacher.

Áður hefur verið greint frá því að Schumacher geti andað án aðstoðar og hafi sýnt viðbrögð þegar Corinna, eiginkona hans, talar.

Læknar hafa efasemdir um að fyrrum ökuþórinn nái fullum bata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert