Aftur fyrir rétt vegna hjartaþjófsins

Réttarhöld yfir Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hófust fyrir áfrýjunardómstól í Rómarborg í dag. Mál þetta snýr að Hjartaþjófinum Ruby og misnotkun valds. Berlusconi var dæmdur í sjö ára fangelsi í undirrétti í júní í fyrra og er búist við endanlegum dómi seint í næsta mánuði.

Berlusconi var sakfelldur fyrir að greiða 17 ára stúlku, Kharima El Mahroug, fyrir kynlíf. El Mahroug gekk undir nafninu Hjartaþjófurinn Ruby (e. Ruby the Heartstealer) þegar hún vann sem nektardansmær og héldu fjölmiðlar á Ítalíu sig ævinlega við það nafn.

El Mahroug hélt því fram að hún hefði fengið greiddar á milli tvö og þrjú þúsund evrur fyrir kvöld með Berlusconi.

Hann var auk þess dæmdur fyrir að misnota op­in­bert vald sitt með því að beita sér fyr­ir því að lög­regl­an leysti El-Mahroug, úr haldi eft­ir að hún var hand­tek­in fyr­ir þjófnað.

Berlusconi var ekki viðstaddur þingfestinguna í dag en Franco Coppi, lögmaður hans, sagði að fallist hefði verið á kröfur hans um dagskrá réttarhaldsins. „Hann [Berlusconi] er sannfærður um sakleysi sitt og það veitir honum styrk. Réttarhöld eru hins vegar aldrei neitt fagnaðarefni og hann er að sjálfsögðu áhyggjufullur.“

Ástæða þess að Berlusconi mætti ekki í dag er sú að hann var við samfélagsþjónustu vegna fyrri dóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert