Fimm karlmenn hafa samið við New York-borg um að fá greiddar bætur upp á 40 milljónir Bandaríkjadala í kjölfar þess að þeir voru ranglega dæmdir fyrir nauðgun og manndrápstilraun í Central Park-garðinum árið 1989. Þetta kemur fram í frétt The New York Times.
Hin 28 ára gamla Trisha Meili var við kvöldskokk í Central Park-garðinum á Manhattan þegar hún var dregin af göngustíg inn í runna. Þar var henni nauðgað hrottalega og hún barin svo harkalega að hún var nærri dauða en lífi þegar hún fannst. Meili lifði árásina af, en mundi hvorki eftir henni né árásarmanninum.
Eftir leit á svæðinu fundu lögreglumenn fimm unglingspilta frá Harlem-hverfinu, en þeir voru allir annaðhvort þeldökkir eða af suður-amerískum uppruna. Piltarnir voru margsinnis yfirheyrðir án þess að hafa lögmenn eða foreldra sína viðstadda og voru sakfelldir þrátt fyrir miklar gloppur í málflutningi ákæruvaldsins og skort á DNA-sýnum.
Piltarnir höfðu setið í fangelsi í fimm til þrettán ár þegar raðnauðgari nokkur viðurkenndi að hafa framið verknaðinn einn. Verði bótasamningurinn endanlega samþykktur af borginni gætu piltarnir hver um sig fengið um eina milljón Bandaríkjadala fyrir hvert ár sem þeir sátu í fangelsi.
Málið hefur vakið mikla athygli og var m.a. umfjöllunarefni myndarinnar „The Central Park Five“ sem sýnd var á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2012.