Sjö almennir borgarar í Bandaríkjunum létust í aðgerðum sérsveita FBI á árunum 2010 til 2013. Í skýrslu sem gerð var um starfssemina eru lögregluyfirvöld sögð ganga of langt og störf séu að nálgast hernaðaraðgerðir.
Skýrslan, sem heitir „War Comes Home“ var gerð af samtökunum ACLU sem berjast fyrir frelsi almennra borgara í Bandaríkjunum.
Í skýrslunni er einnig komist að þeirri niðurstöðu að sérsveitirnar séu nú notaðar í auknum mæli við húsleitir þar sem leitað er af eiturlyfjum. Eru þessar leitir framkvæmdar í viðurvist bæði barna og eldri borgara sem yfirleitt tengjast ekki húsleitunum. Einnig segir í skýrslunni oft sé illa staðið að undirbúningi húsleitanna og illa metið hvort fólkið sem leitað var hjá sé hættulegt eða ekki. Samkvæmt skýrslunni er æ oftar gert ráð fyrir að einstaklingar séu hættulegir frekar en ekki og höguðu sérsveitirnar sér eftir því.
Í skýrslunni kemur einnig fram að 50% þeirra sem urðu fyrir aðgerðum sérsveitarinnar á árunum 2011 og 2012 voru annað hvort þeldökkir eða frá rómönsku-Ameríku. Um 20% þeirra sem urðu fyrir aðgerðum sérsveitarinnar voru hvítir.
Sjö almennir borgarar létust og 46 særðust í aðgerðum sérsveitarinnar í Bandaríkjunum á árunum 2010 til 2013. 79% af starfssemi sérsveitarinnar snerust að húsleitum en 7% að gíslatökum, götuvígum eða skotárásum.
Sérsveit bandarísku alríkislögreglunnar hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni undanfarin ár og er líklegt að skýrslan muni ýta undir hana.
Margar sorgarsögur hafa fylgt sérsveitinni síðustu ár og má þar helst nefna sögu hinnar 26 ára gömlu Tarika Wilson, en hún var skotin til bana af sérsveitinni er hún hélt á 14 mánaða gömlum syni sínum. Jafnframt var fjölskyldufaðirinn Eurie Stamp skotinn til bana á heimili sínu af sérsveitinni á meðan húsleit stóð yfir. Stamp, sem var 68 ára gamall þegar hann lést, sat og horfði á körfubolta í sjónvarpinu er sérsveitinni bar að garði og skaut hann til bana.
Einnig vakti það gífurlegan óhug í Bandaríkjunum þegar Bounkham Phonesavanh, 19 mánaða ungabarn, slasaðist alvarlega eftir að liðsmenn sérsveitarinnar hentu hvellsprengju í vöggu barnsins er það svaf. Barnið stórslasaðist og særðist meðal annars í andliti og bringu. Jafnframt hlaut hann þriðja stigs bruna á líkama sínum.
Hvorki Wilson, Stamp né Phonesavanh voru í stöðu grunaðra í málum sérsveitarinnar.
Í skýrslunni halda ACLU samtökin því fram að þessi aukna hervæðing sérsveitarinnar sé vegna skorts á umsjón frá yfirvöldum og gagnsæis. „Hverfi í borgum og bæjum eru ekki hernaðarsvæði, og lögregluþjónar okkar ættu ekki að koma fram við okkur eins og andstæðinga í stríði.““