Fyrrverandi ritstjóri News of the World og fyrrverandi forstjóri News International, Rebekah Brooks, var sýknuð af öllum ákæruliðum í hlerunarmáli tengdu samnefndu vikuriti. Aftur á móti var Andy Coulson, sem einnig er fyrrverandi ritstjóri blaðsins og fyrrverandi yfirmaður almannatengsla hjá skrifstofu forsætisráðherra Bretlands, Davids Camerons, fundinn sekur um einn lið í ákæru á hendur honum.
Dómar voru að falla í málinu sem skók breskan fjölmiðlamarkað árið 2011 í Old Baily dómhúsinu í Lundúnum fyrir nokkrum mínútum.
Alls voru átta ákærðir og meðal sakargifta eru hleranir á farsímum og mútugreiðslur til lögreglumanna og embættismanna. Þá eru sumir ákærðir fyrir að reyna að leyna sönnunargögnum. Allir neita sakborningarnir sök.
Sumarið 2011 var upplýst að spæjari á vegum sunnudagsblaðsins News of the World hefði brotist inn í talhólf í síma unglingsstúlku sem myrt var árið 2002, og með því spillt fyrir rannsókn málsins.
Upplýst var að ekki einungis hefði umræddur spæjari hlerað talhólf stúlkunnar eftir að hún hvarf, heldur eytt þaðan út skilaboðum svo fleiri kæmust fyrir. Lögregla taldi því að stúlkan væri hugsanlega á lífi. Fjölskyldu hennar var gefin von.
News of the World var einn fjölmiðla í fjölmiðaveldi Ruperts Murdoch en hann á fjölda miðla um allan heim undir regnhlífinni News Corp. Meðal fjölmiðla í hans eigu eru The Times og The Wall Street Journal.
Með fyrstu frétt um innbrot í talhólf ungu stúlkunnar, sem Guardian birti í júlí 2011 fór af stað snjóbolti sem óx og óx. Fljótlega eftir að hlerunarmálið kom upp var ákveðið að slátra gullgæsinni og hætta útgáfu News of the World sem hafði komið út óslitið í 168 ár og Murdoch átt síðan 1969.
Samkvæmt frétt Guardian á Coulson yfir höfði sér fangelsisdóm en hann var dæmdur sekur um að hafa lagt á ráðin um símahleranir þegar hann ritstýrði News of the World. Brooks sem tók við honum í ritstjórastólum var hins vegar sýknuð af öllum fjórum liðum ákærunnar í þessu máli sem hefur verið tekist á um síðustu átta mánuði í Old Baily.Eins var eiginmaður hennar, Charlie Carter, sýknaður af ákæru og lýsa bresku fjölmiðlarnir því nú að það hafi verið tilfinningaþrungin stund þegar þau yfirgáfu réttarsalinn rétt í þessu.
Aftur á móti sýndi Coulson engin merki um tilfinningar sínar þegar dómurinn var kveðinn upp. En Brooks var náföl og tárvot þegar hún var leidd út úr salnum. Á eftir henni kom eiginmaður hennar sem einnig barðist við tárin sem og aðstoðarkona Brokks, Cheryl Carter sem einnig var sýknuð af ákæru. Yfirmaður öryggismála hjá News of the World, Mark Hanna var einnig sýknaður.
Guardian segir að dómurinn yfir Coulsons veki strax upp spurningar um stöðu Camerons sem réð Coulsen til starfa einungis nokkrum vikum eftir að hann hætti sem ritstjóri News of the World.